Hafði verið sviptur ökuréttindum ævilangt

Lögreglan á Suðurnesjum hafði afskipti af ökumanni í umdæmi sínum í vikunni vegna gruns um vímuefnaakstur og reyndist hann hafa verið sviptur ökuréttindum ævilangt.

Sýnatökur á lögreglustöð sýndu að ökumaðurinn hefði neytt fíkniefna. Þá fundust fíkniefni í bifreiðinni sem var í ólagi hvað varðaði hjólabúnað og öryggisbelti sem virkuðu ekki. Farþegi í bifreiðinni var með fíkniefni sem hann afhenti lögreglunni.

Lögreglan hafði einnig afskipti af öðrum ökumanni sem var stöðvaður. Játaði hann fíkniefnaneyslu og voru fíkniefni í hanskahólfi bifreiðarinnar.

mbl.is