Hviður gætu náð allt að 45 m/sek

Besta veðrið fyrir vestan? Gul viðvörun er í gildi í …
Besta veðrið fyrir vestan? Gul viðvörun er í gildi í öllum landshlutum nema á norðanverðum Vestfjörðum og vissara er að fylgjast með veðurspám ef halda á í langferðir á morgun. Kort/Veðurstofa Íslands

Stormur gengur yfir landið á morgun og er gul viðvörun í gildi í öllum landshlutum. Fram kemur á vef Veðurstofu Íslands að búast megi við því að vindhviður við fjöll við Faxaflóa og Suðurlandi geti náð 30-45 m/sek er veðrið gengur yfir.

Í viðvörunum Veðurstofunnar segir að varasamt gæti verið að vera á ferðinni suðvestanlands, sérstaklega á ökutækjum sem taka á sig mikinn vind. Fólk er einnig hvatt til þess að sýna aðgát og ganga kirfilega frá lausum munum.

Veðrið kemur fyrst upp að suðvestanverðu landinu og má búas við því að meðalvindhraði verði á bilinu 18-25 m/sek. Þessu fylgir svo talsverð úrkoma þegar líður á daginn. Vindur verður hægari fram á kvöld á Norður- og Austurlandi og þar verður úrkomulítið.

Mikil rigning suðaustanlands annað kvöld

Sérstaklega er varað við mikilli rigningu á Suðausturlandi og Austfjörðum. Búast má við vatnavöxtum í ám og lækjum og auknar líkur eru taldar á skriðuföllum.

Þessu vatnsveðri sem spáð er fylgir aukið álag á fráveitukerfi og segir Veðurstofan ráðlegt fyrir fólk að huga að niðurföllum.

Varasamir sviptivindar mögulegir í borginni

Á höfuðborgarsvæðinu er gul viðvörun í gildi frá kl. 13 og til kl. 20 á morgun. Veðurstofan varar við því að mögulega verði varasamir sviptivindar í efri byggðum borgarinnar og við háar byggingar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert