Landspítalinn eigi nóg með sitt

„Spítalinn á held ég bara nóg með sitt. Mér finnst …
„Spítalinn á held ég bara nóg með sitt. Mér finnst þetta svolítið sérkennilegur fókus að ætla að bæta þessu verkefni inn á spítalann þegar það eru alls konar þættir, meðal annars þeir sem tengjast þeim sem komnir eru með krabbamein sem vantar mjög mikið upp á,“ segir Halla. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég vona sannarlega að Landspítalinn geti sinnt þessu verkefni en við erum óneitanlega áhyggjufull yfir að það geti reynst erfitt og byggjum þar einfaldlega á reynslu,“ segir Halla Þorvaldsdóttir framkvæmdastjóri Krabbameinsfélags Íslands um það að skimanir fyrir krabbameini í leghálsi og brjóstum færist frá félaginu til Landspítala, Sjúkrahússins á Akureyri og heilsugæslunnar eftir rúmt ár. 

Áhyggjurnar eru tilkomnar vegna fyrri reynslu af störfum Landspítalans þegar kemur að málaflokknum. Þannig hafi framhaldsskoðanir eftir brjóstaskimun farið fram á Landspítalanum síðastliðin þrjú ár og Landspítalinn ekki náð að sinna því verkefni eins og hann ætti að gera. 

„Landspítalinn hefur alls ekki náð að sinna því verkefni eins og honum ber að gera samkvæmt evrópskum viðmiðum. Biðtíminn eftir þessum skoðunum hér á landi hefur verið 35 dagar að meðaltali en hann á að vera fimm dagar,“ segir Halla. 

Fjármagn líklega ótryggt

Krabbameinsfélagið setur sig ekki upp á móti því að skimanirnar séu færðar frá félaginu en Halla segir að það sé grundvallaratriði að þær stofnanir sem taki við verkefninu fái nægilegt fjármagn til þess að sinna því og að þær séu nægilega vel búnar. Slíkt fjármagn hefur að hennar viti ekki verið tryggt. Krabbameinsfélagið hefur borið mikinn kostnað af verkefninu af því að greiðsla ríkisins hefur ekki dugað til þess.

Einnig segir Halla að mikilvægt sé að ávinningurinn af því að færa skimanirnar frá Krabbameinsfélaginu sé skýr. 

„Þetta eru algjörar breytingar, það er alveg ljóst. Það er í sjálfu sér ekkert að því með þetta verkefni eins og önnur að þau séu endurskoðuð. Stóra málið hlýtur að vera að það þurfi að liggja fyrir hver ávinningurinn af breytingunum á að vera, áður en farið er af stað. Þá myndi maður ætla, þegar svona tillögur koma fram, að þá sé búið að tryggja það að stofnanirnar sem um ræðir geti tekið við verkefnunum og sinnt þeim með besta mögulega hætti.“

Enn er óljóst hvaða stofnun muni sjá um boðunarkerfið og …
Enn er óljóst hvaða stofnun muni sjá um boðunarkerfið og sömuleiðis hvaða stofnun muni taka að sér frumurannsóknir. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Sérkennilegt“ að bæta þessu á spítalann

Halla veit ekki til þess að það hafi verið tryggt. 

„Við vitum ekki til þess að Landspítalinn sé með nokkur plön um framkvæmdina nema mögulega sé verið að innrétta húsnæði. Þetta er mjög mikill fjöldi skoðana, um tuttugu þúsund skoðanir árlega og það krefst sérhæfðs mannafla. Eins og ég segi þá hefur spítalanum því miður ekki tekist að sinna því verkefni sem er í framhaldi af þessu verkefni. Svo er raunin náttúrulega sú að Landspítalinn er háskólasjúkrahús og ber samkvæmt lögum að sinna mjög sérhæfðri sjúkrahúsþjónustu, ekki forvörnum.“

Halla telur því að forvarnaþátturinn falli ekki undir verksvið spítalans. Umfangsmiklar niðurskurðaraðgerðir hafa verið boðaðar á Landspítalanum. 

„Spítalinn á held ég bara nóg með sitt nú þegar. Mér finnst það svolítið sérkennilegt að ætla að bæta þessu verkefni inn á spítalann þegar þar eru alls konar þættir, sem meðal annars tengjast þjónustu við þá sem eru með krabbamein sem vantar mjög mikið upp á.“

Leghálsskimanir munu fara fram á heilsugæslustöðvum og brjóstaskimun á Landspítalanum og Sjúkrahúsinu á Akureyri. Framhaldsskoðanir eftir brjóstaskimun fara áfram fram á Landspítalanum og leghálsspeglanir sömuleiðis en tvennt er enn óljóst. 

„Engin ákvörðun liggur fyrir um það hver sjái um boðunarkerfið sjálft heldur ekki hvar frumurannsóknir muni fara fram. Það þarf að rannsaka öll þau sýni sem eru tekin úr leghálsi,“ segir Halla. Krabbameinsfélagið hefur talað fyrir að starfseminni sé haldið áfram í einni einingu. 

Óskar Reyk­dals­son, for­stjóri Heilsu­gæslu höfuðborg­ar­svæðis­ins, er bjartsýnn á að breytingarnar …
Óskar Reyk­dals­son, for­stjóri Heilsu­gæslu höfuðborg­ar­svæðis­ins, er bjartsýnn á að breytingarnar geti orðið til góða. Ljósmynd/Heilsugæslan

90% aukning á komum til Krabbameinsfélagsins

Óskar Reyk­dals­son, for­stjóri Heilsu­gæslu höfuðborg­ar­svæðis­ins, sagði við RÚV fyrir helgi að mark­miðið með tilfærslunni sé að fá fleiri kon­ur til að koma í skimun, þá einkum ung­ar kon­ur, þannig að hægt verði að finna fleiri á forstig­um og reyna að lækka dán­artíðni af völd­um leg­hálskrabba­meins.

Halla telur að heilsugæslan gæti gert heilmikið til þess að hvetja konur til að taka þátt í skimunum, líkt og kemur fram í Krabbameinsáætlun.

„Heilsugæslan hefur líka talað um að skimunin þar verði gjaldfrjáls. Það er frábært og engin spurning um að það skiptir mjög miklu máli eins og hefur komið fram í tilraunaverkefni Krabbameinsfélagsins á þessu ári. Við myndum auðvitað helst vilja að það gerðist strax á næsta ári þannig að ríkið tryggði gjaldfrjálsa skoðun hjá Krabbameinsfélaginu. Þátttakan í skimunum hefur aukist mjög mikið í ár miðað við í fyrra. Í leghálsskimunum þá eru komur á þessu ári fram til 15. september 19% fleiri og 29% fleiri komur hafa verið í brjóstaskimanir. Það er rosalega mikil aukning.“

Halla segir að aukningin sé að öllum líkindum tilkomin vegna margra þátta, hvatninga á samfélagsmiðlum, samstarfs við vinkonuhópa í Bleiku slaufunni en líka vegna þess að Krabbameinsfélagið bauð konum sem urðu 23 ára á árinu og konum sem urðu fertugar á árinu í ókeypis skimun. Þeim yngri í leghálsskimun og þeim eldri í brjóstaskoðun. Þátttaka hjá þessum árgöngum er 90% meiri en í fyrra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert