Leggjast gegn þjóðarsjóði og umferðarsköttum

Þingmenn Miðflokksins hér saman komnir á þingflokksfundi í haust. Flokkurinn …
Þingmenn Miðflokksins hér saman komnir á þingflokksfundi í haust. Flokkurinn samþykkti stjórnmálaályktun á flokksráðsfundi sínum í Reykjanesbæ. mbl.is/Hari

Flokksráð Miðflokksins leggst gegn því að íslenska ríkið stofni þjóðarsjóð og telur að fremur ætti að nota fjármunina sem í slíkan sjóð myndu safnast í innviðauppbyggingu eða skattalækkanir á heimili og fyrirtæki. Þetta er á meðal þess sem fram kemur í tólf áhersluatriðum sem flokkurinn sendi frá sér eftir flokksráðsfund sem fram fór í Reykjanesbæ í dag.

Skattalækkanir eru fyrirferðamiklar á þeim lista, sem er settur upp sem hálfgerður loforðalisti þar sem orðunum „við ætlum“ eða „við höfnum“ er skeytt fyrir framan flest áhersluatriðin.

Flokksráðið segist ætla að leggja áherslu á að lækka skatta og leggja áherslu á „ráðdeild og skilvirkni ríkisrekstrar.“ Umferðarsköttum er með öllu hafnað.

Sveitarfélög fái að ráða sér sjálf

Þá vill flokksráðið „virða sjálfsákvörðunarrétt sveitarfélaga varðandi sameiningar“, leiðrétta kjör eldri borgara og annarra sem reiða sig á lífeyrisgreiðslur og afnema skerðingar til þessara hópa „sem draga úr hvata til sjálfsbjargar“.

Þá vill flokksráðið einnig bregðast við bráðavanda Landspítalans, meðal annars með endurskoðun á stjórnun, mönnun og innkaupum, auk þess sem flokkurinn vill byggja upp heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni og reisa nýjan Landspítala á nýjum stað.

Orkustefnu ESB hafnað

Einnig er lögð áhersla á eflingu iðnnáms, heildstæða byggðastefnu fyrir landið allt, og þá er orkustefnu Evrópusambandsins alfarið hafnað af flokksráðsfélögum Miðflokksins.

Þeir segjast styðja „orkustefnu sem tryggir nýtingu og arð til samfélagslegra verkefna“ og vilja „áfram takmarka framsal valds í stjórnarskrá og stöðva orkupakka 4 leiði hann til frekara framsals fullveldis eða framsals stjórnunar auðlinda.“

Hér að neðan má lesa áherslur flokksráðsfundar Miðflokksins í heild sinni, en í tilkynningu frá flokknum kom fram að ítarlegri stjórnmálaályktun flokksins verði birt eftir helgi.

Opinber stjórnsýsla og einföldun regulverks.

Við ætlum að lækka skatta, leggja áherslu á ráðdeild og skilvirkni ríkisrekstrar, draga úr umfangi íþyngjandi regluverks og virða sjálfsákvörðunarrétt sveitarfélaga varðandi sameiningar.

Málefni eldri borgara og lífeyrisþega

Við ætlum m.a. að efna loforð stjórnvalda um að leiðrétta kjör eldriborgara og annarra sem reiða sig á lífeyrisgreiðslur og afnema skerðingar sem draga úr hvata til sjálfsbjargar og koma á sveigjanlegum starfslokum. 

Heilbrigðismál

Við ætlum að bregðast við bráðavanda Landspítala m.a. með endurskoðun á stjórnun, mönnun og innkaupum, byggja upp heilbrigðissþjónustu á landsbyggðinni og reisa nýjan landspítala á nýjum stað.

Staða iðn- og verkmenntunar

Við ætlum að efla iðn- og verkmenntun m.a.  í samvinnu við atvinnulífið og tryggja að iðnám sé metið jafnt á við bóknám.

Orkustefna til framtíðar

Við höfnum orkustefnu ESB en styðjum orkustefnu sem tryggir nýtingu og arð til samfélagslegra verkefna, við viljum áfram takmarka framsal valds í stjórnarskrá og stöðva orkupakka 4 leiði hann til frekara framsals fullveldis eða framsals stjórnunar auðlinda.

Innlend matvælaframleiðsla

Miðflokkurinn vill sóknaráætlun fyrir íslenska matvælaframleiðslu byggða á langtímastefnu um fæðuöryggi, samfélagslegu mikilvægi og byggðaþróun.

Efling ferðaþjónustu og atvinnulífs

Við ætlum að lækka tryggingagjald og efna til samtals við sveitarfélögin um lækkun skatta á atvinnuhúsnæði ásamt því að vinna með atvinnulífinu að eflingu þess.

Umhverfismál

Við höfnum skattagleði ríksstjórnarinnar og viljum raunhæfar aðgerðir í umhverfismálum í stað sýndaraðgerða. Nýta þarf sorp, auka skógrækt og innlenda framleiðslu.

Samgöngur og flugumferð

Við höfnum auknum umferðarsköttum, leggjum áherslu á uppbyggingu varaflugvalla og bætta aðstöðu á Keflavíkurflugvelli

Þjóðarsjóður í skugga skattheimtu

Miðflokkurinn leggst gegn stofnun þjóðarsjóðs og vill nýta fjármunina í innviðauppbyggingu og/eða lækkun álaga á heimili og fyrirtæki.

Bætt löggæsla og aðgerðir gegn fíkniefnavá

Við ætlum að efla forvarnir og merðferðarúrræði  í samstarfi við fagaðila, styrkja lög- og tollgæslu  í baráttunni við innflutning ólöglegra fíkniefna, lyfja oþh.

Heildstæð byggðastefna

Við ætlum að efla landið allt með heildstæðir byggðastefnu þar sem önnur stefnumótun t.d. orkustefna, sókaráætlun í matvælaframleiðslu og umhverfisstefna vinnur saman.

 

mbl.is

Bloggað um fréttina