Ótrúlegar frásagnir afdalabónda

mbl.is/Kristinn Magnússon

Sunnudaginn 10. nóvember kl. 16 munu þau Ragnar Kjartansson, Davíð Þór Jónsson og Kristín Anna Valtýsdóttir halda tónleika á Gljúfrasteini uppúr bókinni  Reginfjöll að Haustnóttu eftir Kjartan Júlíusson á Skáldstöðum efri.

„Ég er mikill Laxness-aðdáandi, hann er svo mikil fyrirmynd í sínu viðhorfi til listarinnar, þessari djúpu alvöru og íróníu á sama tíma. Mér var boðið að vera með uppákomu á Gljúfrasteini og þá bara kviknaði þessi hugmynd,“ útskýrir Ragnar Kjartansson spurður hvernig hugmyndin að tónleikunum hafi kviknað. „Þessi bók, Reginfjöll á Haustnóttum, er ein af þeim síðustu sem Laxness kom nálægt og áhugavert að á efri árum hafi hann verið að stússast í þessu með Kjartani Júlíussyni á Skáldstöðum efri. Þegar maður les texta Kjartans þá er það mjög skiljanlegt. Þessi bók er eitt af mínum eftirlætis listaverkum, þvílík perla.“

mbl.is/Kristinn Magnússon

Þau Ragnar, Davíð og Kristín verða með áhugaveða tónleika þar sem Ragnar les upp úr bókinni, Davíð Þór flytur tónlist og Kristín flytur lag sem hún er búin að vera að semja út frá litlu ljóði úr bókinni.

Halldór Laxness skrifaði formálann að Reginfjöllum að haustnóttu og var viðriðinn útgáfuna árið 1978. „Þetta er alveg ofboðslega falleg bók, skrifuð af afdalabónda fyrir norðan á Skáldstöðum efri. Þetta eru meira og minna sögur um hans líf og konunnar hans, Finnbjargar. Þetta eru svo ótrúlega flottar frásagnir af því þegar hann fer á haustin, gamall maður, eftir smölun og réttir, og gengur um fjöll og sefur í náttúrunni undir plasti. Þetta er einhver ljóðrænasta bók sem ég hef rekist á og fjallar um hans tilfinningu fyrir náttúrunni og skrítnar litlar sagnir um t.d. djúpa virðingu fyrir draugagangi,“ útskýrir Ragnar.

Spurður út í samstarfið segir Ragnar þríeykið hafa unnið mikið saman í gegnum tíðina. „Við erum gengi. Við höfum verið að vinna saman að allskonar rugli síðan um aldamót. Við erum öll samverkamenn og vinir. Það var eitthvað svo gaman að nota þetta sem ástæðu til þess að hittast og bralla eitthvað og eiga sunnudag á Gljúfrasteini, það er geggjað.“

Miðar eru seldir í safnbúð Gljúfrasteins samdægurs frá kl. 15 og kosta 3500 kr.

Viðtalið við Ragnar Kjartansson má lesa í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »