Tryggingarfélag bótaskylt vegna snjóflóðs

Var dómur héraðsdóms í máli Viðars staðfestur af Landsrétti í …
Var dómur héraðsdóms í máli Viðars staðfestur af Landsrétti í gær. Mbl.is/Hallur

Tryggingarfélaginu Sjóvá var í Landsrétti gert að greiða Viðari Kristinssyni bætur vegna líkams- og munatjóns sem hann varð fyrir þegar hann lenti í snjóflóði 18. janúar 2015. Var dómur héraðsdóms óraskaður í Landsrétti um annað en málskostnað og gjafsóknarkostnað. RÚV greindi fyrst frá. 

Sunnudaginn 18. janúar var Viðar ásamt félaga sínum á fjallaskíðum í hlíðum Eyrarfjalls fyrir ofan Ísafjörð í Skutulsfirði. Til stóð að ganga upp á fjallið að stað sem nefnist Gleiðarhjalli og var áætlun þeirra félaga að renna sér þaðan niður hlíðina. Þegar Viðar og félagi hans voru komnir langleiðina upp hlíðina fór af stað snjóflóð og var því ekki mótmælt að ástæðan fyrir því að snjóflóðið fór af stað hafi verið af þeirra völdum. 

Viðar lenti í flóðinu og barst með því nokkur hundruð metra niður fjallshlíðina. Við það hlaut hann alvarlega áverka auk þess sem fjallaskíðabúnaður og önnur verðmæti sem Viðar hafði á sér skemmdust. Var Viðar inniliggjandi á Landspítalanum í tvær vikur frá slysdegi og í kjölfarið í endurhæfingu á Grensásdeild til loka febrúar 2015. 

Í byrjun febrúar tilkynnti Viðar Sjóvá um slysið með tjónstilkynningu vegna líkamstjóns og daginn eftir vegna munatjóns. Með bréfi dagsettu 25. febrúar hafnaði Sjóvá rétti Viðars til bóta úr fjölskylduvernd og vísaði til þess að félagið bætti ekki tjón vegna náttúruhamfara. 

Af þeirri ástæðu stefndi Viðar tryggingarfélaginu fyrir héraðsdóm til að fá bótarétt sinn viðurkenndan. Bar Viðar því fyrir sig að þar sem snjóflóðið hefði orðið vegna ferða hans og félaga hans á fjallinu væri ekki um náttúruhamfarir að ræða. Féllst héraðsdómur á þann málatilbúnað. Var dóminum áfrýjað af Sjóvá til Landsréttar en Landsréttur staðfesti niðurstöðu héraðsdóms í gær.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert