Valdbeiting lögreglu talin nauðsynleg

Til stympinga kom á milli mótmælenda og lögreglu.
Til stympinga kom á milli mótmælenda og lögreglu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Lögreglan fór hvorki út fyrir valdheimildir sínar þegar Elínborg Harpa Önundardóttir var handtekin í Gleðigöngunni í sumar, né þegar piparúða var beitt á mótmælendur á Austurvelli á mótmælum Refugees in Iceland þar sem tveir voru handteknir. Nefnd um eftirlit með lögreglu (NEL) hefur nú komist að þessari niðurstöðu, samkvæmt frétt Vísis

11. mars síðastliðinn safnaðist fjöldi fólks saman á Austurvelli og mótmælti bágum kjörum hælisleitenda. Mótmælin voru á vegum samtakanna Refugees in Iceland og voru fjórðu mótmæli samtakanna í einum mánuði. Þau höfðu áður mótmælt fyrir utan skrifstofu Útlendingastofnunar. 

Til stympinga kom eftir að lögreglumenn fjarlægðu tvö tjöld mótmælenda um miðjan dag en mótmælendur hugðust dvelja á Austurvelli fram á kvöld. Piparúða var beitt í stympingunum og tveir voru handteknir en sleppt af lögreglustöðinni á Hverfisgötu sama kvöld. Ýmsir gagnrýndu umræddar aðgerðir lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Engar vísbendingar um of mikla valdbeitingu

17. ágúst síðastliðin var kona handtekin í Gleðigöngunni. Konan var Elínborg Harpa Önundardóttir. Sagði Elínborg í viðtali við mbl.is eftir handtökuna að hún hefði ekki verið með nein læti og í raun ekki að mótmæla yfir höfuð þó hún hafi á einhverjum tímapunkti ætlað sér það. 

Aðdrag­andi hand­töku El­ín­borg­ar var sá að hún var að flýta sér niður Skóla­vörðustíg­inn til að hitta vini sína sem voru í Banka­stræti. Gleðigang­an var byrjuð og vildi hún vera með vin­um sín­um þegar hún færi niður Banka­strætið.

„En við gatna­mót Skóla­vörðustígs­ins og Banka­stræt­is var búið að setja upp járn­g­irðing­ar. Ég var að flýta mér og tók ekki eft­ir þeim og geng beint í flasið á þrem­ur lög­reglu­mönn­um. Þeir segja mér að ég megi ekki fara þarna yfir,“ sagði Elínborg í viðtali við mbl.is í kjölfar handtökunnar.

„Ég er hissa á lyg­un­um sem lög­regl­an læt­ur frá sér og mér finnst mjög sárt að vera hand­tek­inn fyr­ir það hver ég er en ekki fyr­ir eitt­hvað sem ég gerði. Ég hélt að slík vinnu­brögð liðust ekki,“ sagði hún sömuleiðis.  

Mál Elínborgar var tekið til skoðunar innan lögreglunnar sem óskaði eftir upptökum og vitnum að atvikinu. Niðurstaða NEL í málinu er sú að ekki sé ástæða til að aðhafast meira vegna málsins þar sem vísbendingar um að lögreglumenn hafi sýnt annað en nauðsynlega valdbeitingu séu ekki til staðar.

Í samtali við Vísi sagði Sigríður Björk Guðjónsdóttir, lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu, að NEL sé mikilvæg til að skapa traust í garð lögreglu. Efni úr myndavélum frá handtökunum kom að notum við fyrirtöku málanna, að sögn Sigríðar og síðan þau komu upp hefur lögreglan hvatt lögreglumenn til að notast við búkmyndavélarnar til þess að taka upp samskipti.

mbl.is