Flugferðum frestað eða þeim aflýst

mbl.is

Fresta hefur þurft eða aflýsa flugferðum Icelandair til og frá landinu í dag vegna veðursins sem gengur yfir það. Þannig segir Ásdís Ýr Pétursdóttir, upplýsingafulltrúi flugfélagsins, í samtali við mbl.is að fresta hafi þurft öllum ferðum frá Evrópu til landsins.

„Þetta tengist allt veðrinu hér á landi. Það er búið að seinka öllum brottförum frá Evrópu einfaldlega til þess að flugvélarnar séu ekki að lenda hér þegar veðrið stendur sem hæst. Við lendum stundum í því að ef það gustar yfir 50 hnúta kemst fólk ekki frá borði samkvæmt öryggisreglum Isavia. Þannig að við erum að reyna að seinka frekar fluginu til þess að vélarnar lendi frekar hérna þegar dregið hefur úr veðrinu,“ segir Ásdís Ýr.

„Við erum síðan að seinka flugvélunum til Stokkhólms, Kaupmannahafnar og Ósló sem áttu að fara síðdegis í dag og þær fara ekki fyrr en tvö í nótt. Síðan erum við líka að fresta brottförum til Norður-Ameríku til klukkan svona 8-9 í kvöld. Við aflýstum síðan flugi þriggja véla til vesturstrandar Bandaríkjanna, til San Francisco, Seattle og Denver, og erum að vinna í því að leita lausna fyrir þá farþega,“ segir hún enn fremur.

Hvað aðrar ferðir til Bandaríkjanna varðar segir Ásdís að gert sé ráð fyrir að þeim seinki. „Við vonumst til að geta komið þeim í loftið í kvöld en erum auðvitað bara að taka stöðuna eftir því sem líður á daginn og þetta miðar við þær veðurspár sem við erum að vinna eftir. Við fórum strax í það í gær að endurbóka alla skiptifarþega sem áttu flug með okkur frá Evrópu til Bandaríkjanna til þess að tryggja að þeir yrðu ekki strandaglópar hér á landi og létta á álaginu. Þannig að við erum að reyna að draga úr áhrifunum eins og hægt er.“

Veðrið hefur haft áhrif á fleiri flugferðir en þannig var flugi SAS frá Keflavík til Óslóar í morgun aflýst. Þá hefur veðrið haft áhrif á ferðir Strætó á landsbyggðinni og leitt til þess að Herjólfur hefur þurft að sigla til Þorlákshafnar í dag í stað Landeyjahafnar.

Uppfært 13:50: Öllu flugi á Keflavíkurflugvelli hefur verið aflýst eða því seinkað vegna stormsins sem gengur yfir landið samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Suðurnesjum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert