Hagkvæmara fyrir ríkið að bjarga WOW air

Skúli Mogensen, fyrrverandi eigandi WOW air.
Skúli Mogensen, fyrrverandi eigandi WOW air. Ljósmynd/Aðsend

„Það er löngu orðið ljóst að það hefði verið mun hagkvæmari fyrir ríkið að koma að björgun WOW heldur en að leyfa því að falla,“ segir Skúli Mogensen, fyrrverandi eigandi og forstjóri flugfélagsins WOW air á Facebook-síðu sinni í dag.

Vísar hann þar til fréttar mbl.is um að fall WOW air vegi þungt í fjáraukalögum vegna þessa árs og er einkum skírskotað í þeim efnum til aukinna greiðslna vegna atvinnuleysisbóta og í ábyrgðarsjóð launa sem nemi 7,6 milljörðum króna.

„Það var þegar búið að endurskipuleggja rekstur WOW og koma honum í sama horf og þegar best lét á árunum 2015/6, ríkið hefði hæglega getað gripið inní líkt og Þjóðverjar gerðu með AirBerlin á meðan verið væri að tryggja langtíma fjármögnun félagsins,“ segir Skúli. „WOW skilaði ríkinu beint og óbeint tugum miljarða í ríkissjóð undanfarin ár svo ekki sé talað um heildar áhrifin sem WOW hafði á svo til alla verslun og þjónustu í landinu.“

„Það var hörmulegt að horfa á WOW falla og allt okkar frábæra fólk missa vinnuna. Svo það sé sagt þá er ég ekki að kenna ríkinu um hvernig fór né að draga úr minni ábyrgð heldur aðeins að benda á þá staðreynd að það hefði verið mun skynsamlegra að tryggja áframhaldandi rekstur WOW öllum til hagsbóta.“

Við uppgjör þrotabús WOW air kom fram að við gjaldþrot félagsins hafi einungis þrjár milljónir króna verið á reikningi þess. Kröfur í búið námu samtals 138 milljörðum króna. Þar af var krafa frá Skúla og félögum tengdum honum upp á 3,8 milljarða.

mbl.is

Bloggað um fréttina