„Hann náði að bjarga sér“

Úr myndskeiðinu sem Sigurður tók.
Úr myndskeiðinu sem Sigurður tók. Mynd/Skjáskot

Kínverskur karlmaður á fertugsaldri slasaðist á öxl í Reynisfjöru eftir að hafa lent þar í stórri öldu í dag. „Hann var sterkur. Hann náði að bjarga sér og halda sér í eitthvað fast en slasaðist eitthvað á öxl við það,“ segir Sigurður Sigurbjörnsson, varðstjóri hjá lögreglunni í Vík í Mýrdal, en maðurinn var fluttur á sjúkrahús til aðhlynningar.

Eftir atvikið tók Sigurður upp myndskeið af ölduganginum í fjörunni. „Myndbandið segir meira mörg orð. Þetta er gömul saga og ný það sem er í gangi þarna.“

Gera sér ekki grein fyrir hættunni

Leiðsögumaðurinn Þórólfur Sævar Guðmundsson var einnig staddur í Reynisfjöru í dag. Hann fékk myndskeið frá einum úr sínum kúnnahópi og sést það hér fyrir neðan. Þar sjást ferðamenn lenda aftur í kröppum dansi. „Þetta er með því mesta sem ég hef séð,“ segir hann um ölduganginn.

„Það er eins og fólk geri sér ekki grein fyrir hættunni. Það er eins og sumir hafi verið að reyna að ögra sjónum.“

Segir að fólk hafi dáið

Þórólfur Sævar segist alltaf vara sína kúnna við hættunni í Reynisfjöru en tekur fram að í 90% tilvika sé svæðið hættulaust. „Ég er ekkert að skafa utan af því. Ég segi fólkinu að við höfum misst líf þarna,“ greinir hann frá og telur að fólk sem er í hóp á vegum ferðaþjónustuaðila passi sig betur en þeir sem eru á eigin vegum. „Það er mín tilfinning að það passi sig betur. Það er búið að fá viðvörun.“

Þórólfur Sævar hefði viljað að svæðinu yrði lokað í dag. Aðspurður segir Sigurður það ekki hafa komið til tals. „Það er bara mjög erfitt að standa í því,“ segir hann og nefnir að svæðið sé stórt. „Það er búið að taka þessa umræðu í marga hringi. Maður verður alltaf að höfða til einstaklinganna sjálfra sem eru á ferðinni að þeir passi sig. Það eru ágætis skilti þarna.“  

mbl.is

Bloggað um fréttina