Lögbann gegn ólöglegri efnisveitu staðfest

IPTV Iceland hefur meðal annars selt aðgang að ensku knattspyrnunni, …
IPTV Iceland hefur meðal annars selt aðgang að ensku knattspyrnunni, þar sem Liverpool fer þessa dagana á kostum. AFP

Héraðsdómur Reykjavíkur staðfesti í dag lögbann á hendur efnisveitunni IPTV Iceland sem selur ólöglegt sjónvarpsefni en áður hafði sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu fallist á lögbannið í maí í fyrra. Hallgrímur Kristinsson, formaður FRÍSK, Fé­lags rétt­hafa í sjón­varps- og kvik­myndaiðnaði, segir að til skoðunar sé að fara á eftir fleiri svona þjónustum.

Sýn höfðaði málið en samkvæmt málatilbúnaði fyrirtækisins hafði IPTV Iceland frá því í ágúst 2017 miðlað og selt almenningi aðgang að verulegum fjölda erlendra sjónvarpsrása, auk aðgangs að miklu magni kvikmynda- og íþróttaefnis, sem Sýn hafi sýningarrétt að hér á landi.

Starfsemin hafi verið auglýst á Facebook-síðu IPTV Iceland þar sem viðskiptavinum stóð meðal annars til boða „Gamli góði pakkinn“. Þar var boðinn aðgangur að um 500 sjónvarpsrásum gegn greiðslu 2.500 króna á mánuði.

Einhver að gera honum „grikk“

Þegar lögbannskrafan var tekin fyrir hjá sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu í fyrra sagði sá sem stefnt er vegna málsins að hann væri ekki réttur aðili og neitaði að hafa veitt þá þjónustu sem lögbannskrafan laut að.

Reikningsnúmer og kennitala sem auglýst voru á Facebook-síðu IPTV Iceland væru þó hans en líklega væri einhver að gera honum „grikk“ með þessu. Hann neitaði að leggja fram bankayfirlit til að sýna fram á að hann hefði ekki móttekið greiðslur fyrir þjónustu IPTV Iceland.

Stefna Sýnar byggir á því að starfsemi IPTV Iceland sé í einu og öllu brot gegn höfundarétti annarra. 

Héraðsdómur segir að ágreiningur í málinu snúi einkum að því hvort hinn stefndi hafi miðlað höfundarréttarvörðu efni til almennings í gegnum streymisveituna IPTV Iceland, þvert á sýningarrétt stefnanda, með afhendingu tæknibúnaðar sem stefnandi selur, og sé þá forstilltur í þeim tilgangi að móttaka sjónvarpsefni, án heimildar frá stefnanda.

Dómarinn fellst ekki á þau rök stefnda að hann sé ekki réttur aðili að málinu. 

Lögbannið er eins og áður segir staðfest og má Iceland IPTV því ekki selja aðgang, eða gera á annan hátt aðgengilegar sjónvarpsútsendingar þar sem sýnt er frá leikjum í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu. 

Efniveitunni er heldur ekki heimilt að sýna eða selja aðgang að verkum sem Sýn á einkarétt á til sýningar á Íslandi. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert