Ómögulegt að segja hvert samræður leiði

Hjálmar segir að umræður á fundi dagsins hafi verið hreinskiptar.
Hjálmar segir að umræður á fundi dagsins hafi verið hreinskiptar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég myndi segja að þetta hafi verið góður fundur og hreinskiptar umræður sem fram fóru,“ segir Hjálmar Jónsson, formaður Blaðamannafélags Íslands, um fyrsta fund samninganefndar með Samtökum atvinnulífsins hjá ríkissáttasemjara eftir vinnustöðvunina sem fram fór á föstudag.

„Það var ákveðið að vera með vinnufund á morgun og síðan boðar sáttasemjari annan fund á fimmtudaginn kl. 13:30.“

Fundurinn í dag stóð í um eina og hálfa klukkustund. „Við erum að ræða saman en hvert það leiðir er ómögulegt að segja ennþá,“ segir Hjálmar.

Kjarasamningar Blaðamannafélags Íslands við fjölmiðlafyrirtækin fjögur sem standa innan Samtaka atvinnulífsins, Árvakur, Sýn, Ríkisútvarpið og Torg, runnu út 1. janúar og var kjaraviðræðum vísað til ríkissáttasemjara í lok maímánaðar.

Félagsmenn samþykktu vinnustöðvun með atkvæðagreiðslu í lok október og fór sú fyrsta fram föstudaginn 8. nóvember. Þá hafa vinnustöðvanir verið boðaðar föstudagana 15. og 22. nóvember og loks fimmtudaginn 28. nóvember, að því gefnu að ekki takist að semja.

Tekið skal fram að blaðamaður og flest­ir aðrir blaðamenn á rit­stjórn mbl.is og Morg­un­blaðsins eru fé­lag­ar í Blaðamanna­fé­lagi Íslands.

mbl.is