Orðinn stærstur af „risunum þremur“

Úr vöruhúsi Heimkaupa í dag.
Úr vöruhúsi Heimkaupa í dag. Ljósmynd/Guðmundur Magnason

Singles Day eða Dagur einhleypra, sem er í dag, er orðinn stærstur af „risunum þremur“ í netsölu, en hinir tveir eru Svarti föstudagurinn (Black Friday)  og Netmánudagurinn (Cyber Monday). Guðmundur Magnason, forstjóri Heimkaupa, segir að verslunin sé að keppa við erlendar netverslanir og að ekki hafi komið annað til greina en að taka þátt í þessum degi.

Uppruna dagsins, sem á kínversku heitir Guanggun Jie, má rekja til einhleypra háskólanemenda í Kína sem vildu gera vel við sig og gefa sjálfum sér gjafir. Þegar kínverski netverslunarrisinn Alibaba tók daginn upp á arma sér árið 2013 fylgdu netverslanir víða um heim í kjölfarið og nú er Dagur einhleypra sá dagur á árinu þar sem mest selst í netverslunum. 

Guðmundur Magnason, forstjóri Heimkaupa.
Guðmundur Magnason, forstjóri Heimkaupa.

Mikil aukning á milli ára

„Þetta er þriðja árið í röð sem við erum með sérstaka afslætti á þessum degi,“ segir Guðmundur. „Fyrsta árið fór þetta frekar rólega af stað, ég held að fólk hafi ekki áttað sig almennilega á þessu. En í fyrra varð „allt vitlaust“ og það lítur núna út fyrir að það verði 40% aukning á milli ára; a.m.k. hefur dagurinn verið þannig það sem af er.“

Spurður hvort annars konar vörur séu að seljast á þessum degi en hina tvo stóru netsöludagana segir Guðmundur að fjölbreyttari varningur seljist á Degi einhleypra. „Það er greinilegt að margir eru að kaupa jólagjafir; fólk er að kaupa spil, leikföng, jólasælgæti og bækur.“ Hann segir að birgjar og framleiðendur taki einnig þátt í þessum degi og að versluninni bjóðist ýmsir afslættir sem ekki séu í boði að öllu jöfnu.

Myndin er tekin í vöruhúsi í Peking í Kína þar …
Myndin er tekin í vöruhúsi í Peking í Kína þar sem varningur, sem keyptur hefur verið á netverslunum á Degi einhleypra, bíður þess að vera sendur til kaupenda. AFP

Veit ekki til þess að fleiri slíkir dagar séu væntanlegir

Heimkaup auglýsir þennan dag undir enska heitinu Singles Day. Spurður hvort ekki hafi komið til greina að nota íslenska heitið segir Guðmundur að það hafi verið rætt. Niðurstaðan hafi aftur á móti orðið að þar sem dagurinn sé orðinn þekktur undir þessu heiti á alþjóðavísu hafi enska heitið verið valið. 

Ljósaskilti í borginni Hangzhou í austurhluta Kína sýnir söluna á …
Ljósaskilti í borginni Hangzhou í austurhluta Kína sýnir söluna á Degi einhleypra. AFP

Guðmundur segir aðspurður að hann viti ekki til þess að fleiri svona netsöludaga sé að vænta. „Nei, ég hef ekki heyrt af því, en ef einhver nýr dagur yrði kynntur til sögunnar myndum við hjá Heimkaup líklega taka þátt í því.“

mbl.is

Bloggað um fréttina