68% af framlögum XS frá hinu opinbera

Logi EInarsson formaður Samfylkingarinnar á flokkstjórnarfundi flokksins í síðasta mánuði.
Logi EInarsson formaður Samfylkingarinnar á flokkstjórnarfundi flokksins í síðasta mánuði. mbl.is/Haraldur Jónasson/Hari

Um 68% af þeim framlögum sem Samfylkingin fékk á síðasta ári voru úr opinberum sjóðum. Fjölmargir bæjarfulltrúar og þingmenn flokksins lögðu honum til 400.000 króna framlag í fyrra og rekstur flokksins var tvöfalt dýrari í fyrra en árið á undan.

Þetta er meðal þess sem fram kemur í ársreikningi Samfylkingarinnar sem birtur er á vefsíðu Ríkisendurskoðunar.

Alls námu tekjur flokksins 148.686.251 krónum og þar af var 88.787.778 króna ríkisframlag. Það er talsvert hærra en árið 2017 þegar það var rúmar 23 milljónir. Skýringin á því er að mestu leyti fjölgun þingmanna úr þremur í sjö í þingkosningunum í október 2017. Framlög sveitarfélaga árið 2018 námu rúmum 12 milljónum og samtals fékk Samfylkingin 100.828.965 krónur úr opinberum sjóðum í fyrra.

Dýrara að reka Samfylkinguna í fyrra en árið á undan

Framlög einstaklinga, þar með talin félagsgjöld, voru rúmar 23,6 milljónir, sem er átta milljónum meira en árið á undan og framlög lögaðila voru 3.485.000 sem var næstum því helmingi minna en árið á undan.

Rekstur flokksins var talsvert dýrari í fyrra en árið áður; á síðasta ári voru rekstrargjöld alls tæpar 126,5 milljónir en árið 2017 voru þau tæpar 55 milljónir. Hagnaður Samfylkingarinnar á síðasta ári var nokkuð lægri en árið á undan; þá var hann rúmar 34,5 milljónir en var í fyrra rúmar 22 milljónir. Eignir Samfylkingarinnar námu um 194,5 milljónum króna í lok síðasta árs og jukust um 3,5 milljónir á milli ára.

Borgarstjóri lagði  til 400.000 krónur

Í ársreikningnum eru framlög til flokksins tíunduð. Níu einstaklingar úr hópi bæjarfulltrúa og þingmanna flokksins greiddu 400.000 króna framlag til hans í fyrra; þau Adda María Jóhannsdóttir bæjarfulltrúi í Hafnarfirði, Ágúst Ólafur Ólafsson þingmaður, Dagur B. Eggertsson borgarstjóri í Reykjavík, Guðjón S. Brjánsson þingmaður, Guðmundur Andri Thorsson þingmaður, Heiða Björg Hilmisdóttir borgarfulltrúi, Helga Vala Helgadóttir þingmaður, Kristín Soffía Jónsdóttir borgarfulltrúi og Skúli Þór Helgason borgarfulltrúi.

Hjálmar Sveinsson borgarfulltrúi var nálægt því að komast á þennan lista, en framlag hans var rúmar 394.000 krónur.

Síminn, Alþýðuhús Reykjavíkur ehf,  og sjálfseignarsjóðurinn Sigfúsarsjóður voru þeir lögaðilar sem lögðu flokknum til hæst framlög á síðasta ári, 400.000 krónur, en tveir þeir síðastnefndu eiga skrifstofuhúsnæði Samfylkingarinnar.  

mbl.is