„Er ekki amerískur jólabrjálæðingur“

Anthony, sem er frá Kaliforníuríki í Bandaríkjunum, hefur verið búsettur …
Anthony, sem er frá Kaliforníuríki í Bandaríkjunum, hefur verið búsettur hér á landi í tíu ár og rekur nú hönnunarstúdíó og heimilisvörufyrirtækið Reykjavík Trading Co ásamt eiginkonu sinni Ýr Káradóttur. Þau reka einnig verslunina The Shed í bílskúr við hús þeirra. Ljósmynd/Aðsend

Það tók fimm kvöld og 500 ljósaperur. Anthony Bacigalupo hafði í nokkur ár langað til að klæða stóra gamla grenitréð, sem blasti við út um gluggann hans á Suðurgötu í Hafnarfirði, í jólabúning og í síðustu viku lét hann verða af því. Til þess að það mætti verða þurfti hann að yfirstíga verulega lofthræðslu og beita talverðri útsjónarsemi. 

Anthony, sem er frá Kaliforníuríki í Bandaríkjunum, hefur verið búsettur hér á landi í tíu ár og rekur nú hönnunarstúdíó og heimilisvörufyrirtækið Reykjavík Trading Co ásamt eiginkonu sinni Ýr Káradóttur. Þau reka einnig verslunina The Shed í bílskúr við hús þeirra.

View this post on Instagram

A post shared by Anthony Bacigalupo (@mono1984) on Oct 7, 2019 at 8:17am PDT

Anthony og enn ein hugmyndin hans

Hann segir að hugmyndin að því að skreyta tréð jólaljósum hafi vaknað þegar hann sá það fyrst, en tréð stendur á auðu svæði á bak við hús hans. „Þetta er gamalt tré, mér skilst að það sé um 100 ára, meðal elstu trjáa í Hafnarfirði og að hjónin Jón Gestur Vigfússon og Sesselja Magnúsdóttir hafi gróðursett það. Mig langaði til að heiðra þau. Það átti reyndar að fella það fyrir nokkrum árum og gera þarna bílastæði. Ég lagði til að þarna yrði grænt svæði sem við hjónin myndum hanna og sjá um fyrir samfélagið í kring,“ segir Anthony sem segir að viðbrögð nágranna hans, þegar hann viðraði þessa hugmynd hafi verið: „Anthony og enn ein hugmyndin hans.“

Tréð er engin smásmíði, 24 metra hátt og til skreytinganna þurfti 500 stórar ljósaperur. „Ég fann réttu perurnar í Costco og þegar ég sagði þeim hvað ég ætlaði að gera við þær buðust þau til að gefa mér helminginn af perunum.“ Fleiri réttu Anthony lið; hann segir að bæjaryfirvöld í Hafnarfirði hafi séð mikilvægi þessa fyrir samfélagið og veitt fjárstyrk til að standa straum af hluta kostnaðar við skreytingarnar og vinnuvélaleigan Tæki lánaði honum lyftu til verksins, sem tók fimm kvöld. 

Jólatréð ljósum prýtt. Það verður formlega tendrað fyrsta sunnudag í …
Jólatréð ljósum prýtt. Það verður formlega tendrað fyrsta sunnudag í aðventu. Ljósmynd/Aðsend

„Það er gaman að búa í bæ þar sem bæjaryfirvöld eru tilbúin til að taka þátt í alls konar ævintýrum sem bæjarbúum detta í hug og ég finn það mjög sterkt hvað þau styðja við nýjar hugmyndir, ekki síst ef þær snúast um eitthvað nýtt og skemmtilegt.“ 

Fór talsvert út fyrir þægindahringinn

Hann lauk við að prýða tréð ljósum í síðustu viku og þá var „generalprufa“ þar sem öll ljósin voru kveikt. Það verður síðan tendrað við formlega athöfn fyrsta sunnudag í aðventu og þá verður jólastund með jólatónlist og jólaglöggi í The Shed þangað sem allir eru velkomnir.

Anthony segist vera „illilega haldinn“ af lofthræðslu og því hafi það verið talsverð þrekraun fyrir hann að fara 24 metra upp í lyftunni til skreyta tréð. „Við getum orðað það þannig að ég hafi farið talsvert út fyrir þægindahringinn. Og ég ætla ekki að mæla sérstaklega með því að lofthrætt fólk fari upp í 24 metra hæð í frosti.“

„Svolítið sérstakt“ samfélag í Hafnarfirði

Viðbrögð Hafnfirðinga  hafa ekki látið á sér standa, að sögn Anthonys. „Það er eitthvað við jólatré sem gleður fólk og margir hafa hrósað mér fyrir að hafa skreytt tréð. Margir eldri bæjarbúar sem hafa haft það fyrir augunum í áratugi segjast varla hafa tekið eftir því fyrr en núna. Það er svolítið sérstakt samfélag í Hafnarfirði sem ég held að sé ekki á öllum stöðum. Með sérstakt á ég við gott.“

Anthony segir að hugsanlega hafi einhverjum þótt hann færast helst til mikið í fang með tiltækinu. Kannski halda einhverjir að ég sé galinn amerískur jólabrjálæðingur. Svona eins og Clark Griswold [sem Chevy Chase lék í kvikmyndinni National Lampoon´s Christmas Vacation]. En það er öðru nær. Ég ólst ekki upp við miklar jólaskreytingar.“

Anthony Bacigalupo hafði í nokkur ár langað til að klæða …
Anthony Bacigalupo hafði í nokkur ár langað til að klæða stóra gamla grenitréð, sem blasti við út um gluggann hans á Suðurgötu í Hafnarfirði, í jólabúning og í síðustu viku lét hann verða af því. Ljósmynd/Aðsend

Ég varð svona þegar ég flutti til Íslands

Blaðamaður spyr Anthony hvort hann sé að bæta sér upp þennan skort á jólaskreytingum í æsku á fullorðinsárum. „Já, ætli það ekki bara,“ svarar hann og hlær. „Ég var ekkert sérlega mikið jólabarn áður, en ég varð svona þegar ég flutti til Íslands. Þá áttaði ég mig á því að jólin snúast ekki um gjafir heldur samveru og gleði.“

Og hann hefur áunnið sér viðurnefni með jólaáhuga sínum og skreytingagleði. „Ég hef heyrt að einhverjir kalla mig álfinn frá Kaliforníu. Það finnst mér ferlega skemmtilegt!“

mbl.is