Fluttu inn kókaín í niðursuðudósum

Mennirnir sættu báðir gæsluvarðhaldi vegna rannsóknar málsins frá 3. febrúar ...
Mennirnir sættu báðir gæsluvarðhaldi vegna rannsóknar málsins frá 3. febrúar til hins 16. sama mánaðar. AFP

Tveir menn hafa verið fundnir sekir um stórfellt fíkniefnalagabrot vegna innflutnings á tæplega kílói af kókaíni í fjórum niðursuðudósum, sem kom til landsins með hraðsendingu frá Belgíu 2. febrúar 2018.

Pálmi Snær Magnússon, annar sakfelldu, tók við sendingunni á þáverandi heimili sínu í Breiðholti að beiðni Jónasar Vals Jónassonar, hins sakfellda, en var handtekinn á leið með sendinguna til hins síðarnefnda.

Þeir sættu báðir gæsluvarðhaldi vegna rannsóknar málsins frá 3. febrúar til hins 16. sama mánaðar.

Notaði stolið parket upp í leigu og kaup á bifreið

Héraðsdómur Reykjaness úrskurðaði í málinu í dag og dæmdi Pálma Snæ til fangelsisvistar í 15 mánuði, en Jónas Val til fangelsis í 22 mánuði. Sá síðarnefndi var ekki aðeins fundinn sekur um fíkniefnalagabrot, heldur var mál það sameinað öðrum málum sem lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu höfðaði gegn honum vegna annarra brota, m.a. þjófnaðar og peningaþvættis.

Jónas Valur var þannig einnig fundinn sekur um að hafa stolið umtalsverðu magni af byggingarefni frá þáverandi vinnuveitanda sínum, Agli Árnasyni ehf., að verðmæti u.þ.b. 2 milljónir króna. Parketið notaði hann svo m.a. til þess að greiða leigusala sínum leigu og til þess að greiða hluta kaupverðs bifreiðar.

mbl.is