Hafa ekki efni á að borga

Margir hafa ekki efni á því að borga reikninga sína hjá sjúkraþjálfurum að fullu á staðnum áður þeir eiga að fara til Sjúkratrygginga Íslands til að fá endurgreitt.

Þetta sagði Inga Sæland, þingmaður Flokks fólksins, undir dagskrárliðnum störf þingsins á Alþingi og bætti við að þessi staða sé sorgleg.

„Það eru ansi margir úti í samfélaginu sem hafa hreinlega ekki efni á því, það er alveg á hreinu. Þeir munu sennilega frekar sleppa því að fara til sjúkraþjálfara. Fyrir utan það benda fulltrúar frá Félagi sjúkraþjálfara á að eldri borgarar muni sannarlega ekki ríða feitum hesti frá þessu og fái enga þjónustu inn á heimili sín,“ sagði Inga.

Þorsteinn Víglundsson.
Þorsteinn Víglundsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þorsteinn Víglundsson, þingmaður Viðreisnar, sagði að auk deilna Sjúkratrygginga og sjúkraþjálfara þá standi enn ógerðir samningar við sérfræðilækna og hjúkrunarheimili varðandi daggjöld.

„Þetta bætist við endurteknar ákúrur vegna starfsemi Sjúkratrygginga, m.a. í skýrslu Ríkisendurskoðunar á síðasta ári sem gerði alvarlegar athugasemdir við fagleg vinnubrögð Sjúkratrygginga og dró í efa að þar væri unnið með hámarksskilvirkni og hagkvæmni heilbrigðiskerfisins að leiðarljósi. Í dag birtist úttekt endurskoðunarfyrirtækisins KPMG sem er nokkuð á sama veg, þ.e. að verulega skorti á fagleg vinnubrögð innan Sjúkratrygginga,“ sagði hann.

Bætti hann við að þegar allt sé lagt saman, rekstur hjúkrunarheimila, samningar við sérfræðilækna og samningar við sjúkraþjálfara slagi það í um 30% af útgjöldum ríkisins til heilbrigðismála á ári hverju. „Það hlýtur að vera ótækt með öllu að svo viðamikill þáttur í starfsemi heilbrigðiskerfisins sé unninn án samninga.“

mbl.is