Miðflokkurinn með 17 breytingartillögur

Miðflokkurinn.
Miðflokkurinn. mbl.is/​Hari

Miðflokkurinn hefur gert sautján breytingartillögur við fjárlög fyrir árið 2020 og hljóða breytingarnar upp á 4.660 milljónir króna.

Í tilkynningu flokksins kemur fram að allar tillögurnar séu fullfjármagnaðar og muni ekki auka á halla ríkissjóðs. Miðflokkurinn leggur til að hagræðingarkrafa verði gerð á öll ráðuneytin. „Það er orðið löngu tímabært að ráðast í uppstokkun á opinbera kerfinu og draga úr umsvifum hins opinbera,“ segir í tilkynningunni.

Þar kemur fram að hagræðingin muni skila ríkissjóði sparnað upp á 1,1 milljarð króna. Auk þess er gerð sérstök hagræðingarkrafa á sameiningu Seðlabanka Íslands og FME upp á 350 milljónir króna. Samtals er því gerð hagræðingarkrafa á ríkisrekstur upp á 1.450 milljónir króna á árinu 2020.

Helstu breytingarnar í tillögunum felast í að leggja aukið fjármagn til hjúkrunarheimila upp á 800 milljónir króna vegna rekstrarvanda þeirra. Lagt er til að framlög til öryrkja aukist um 525 milljónir, annars vegar vegna hækkunar á frítekjumarki og hins vegar vegna framlags til að auka stuðningsstörf.

Framlög til löggæslu, tollgæslu og landamæraeftirlits verða aukin um 550 milljónir króna, auk þess sem Miðflokkurinn leggur til lækkun á tryggingagjaldi upp á 0,25% og hækkun til heilbrigðisstofnana á landsbyggðinni upp á 250 milljónir. Fallið verði frá 10% hækkun kolefnisgjalds.

Nefndarálit Birgis Þórarinssonar, fulltrúa Miðflokksins í fjárlaganefnd

mbl.is

Bloggað um fréttina