Misvísandi svör SÍ vegna niðurgreiðslu

Sjúkratryggingar Íslands.
Sjúkratryggingar Íslands. mbl.is/Hjörtur

Skjólstæðingar sjúkraþjálfara sem hafa mætt til Sjúkratrygginga Íslands í dag í von um að fá niðurgreidda sjúkraþjálfun hafa fengið misvísandi svör þegar þangað hefur verið komið.

Einn skjólstæðingur sem hafði samband við mbl.is kvaðst hafa mætt til Sjúkratrygginga Íslands með pappírskvittun frá sjúkraþjálfara í von um endurgreiðslu en fékk þau svör að stofnunin taki eingöngu við rafrænum kvittunum beint frá sjúkraþjálfurum.

Unnur Pétursdóttir, formaður Félags sjúkraþjálfara, segist ekki hafa heyrt af tilviki sem þessu en tekur fram að félagið hafi haft spurnir af því að Sjúkratryggingar Íslands endurgreiði ekki hluta sjúklings. „Hins vegar eru greinilega fjölmargar útgáfur af þeim svörum sem skjólstæðingar okkar fá og ég er örugglega ekki búin að heyra þær allar,“ segir hún.

„Þetta segir okkur hversu illa Sjúkratryggingar Íslands undirbjuggu sig undir þá staðreynd að við sögðum okkur af samningi.“

Unnur Pétursdóttir, formaður Félags sjúkraþjálfara.
Unnur Pétursdóttir, formaður Félags sjúkraþjálfara.

Hvattir til að leita réttar síns

Unnur nefnir að stofnuninni hafi verið tilkynnt um það í síðustu viku og því hafði hún marga daga til að undirbúa sig. Engu að síður virðist það hafa komið stofnuninni í opna skjöldu að fólk myndi leita til hennar til að fá endurgreitt eins og réttur sjúkratryggðra er.

„Við höfum aldrei fullyrt við skjólstæðinga að þeir fái endurgreitt en við höfum hvatt þá eindregið til að leita réttar síns hjá Sjúkratryggingum því að við teljum það vera skýlausan rétt hins sjúkratryggða að fá niðurgreidda sjúkraþjálfun eins og lög gera ráð fyrir og þá er alvega sama hvort það eru rafræn samskipti eða önnur samskipti.“

Flókið að halda utan um réttindin

Aðspurð segir hún kröfuna um rafræna kvittun eðlilega vegna nýja greiðsluþátttökukerfisins sem tók gildi árið 2017. Vegna þess hversu flókið það er þurfi upplýsingar að vera í tölvutæku umhverfi til að hægt sé að halda utan um réttindi skjólstæðinga. „Vitandi það buðum við Sjúkratryggingum Íslands að vera áfram í rafrænum samskiptum um endurgreiðslu hluta sjúklinga en þeir ákváðu að taka þann pólinn í hæðina að vefengja rétt okkar til að segja okkur af samningi,“ greinir hún frá og bætir við að stofnunin hafi ekki svarað tilboði þeirra um rafrænu samskiptin.

Ekki náðist í forstjóra Sjúkratrygginga Íslands við vinnslu fréttarinnar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert