Mútur til að komast yfir fiskveiðikvóta

Úr þættinum Kveik í kvöld.
Úr þættinum Kveik í kvöld. Ljósmynd/Skjáskot

Félög í eigu Samherja eru sögð hafa greitt hundruð milljóna króna í mútur til einstaklinga sem eru tengdir Bernhard Esau, sjávarútvegsráðherra Namibíu, til að tryggja aðgang að fiskveiðikvóta í landinu.

Í gögnum sem fréttaskýringaþátturinn Kveikur og Stundin hafa undir höndum koma fram greiðslur fyrir á annan milljarð króna til aðila sem taka ákvarðanir um sjávarútvegsmál fyrir hönd namibíska ríkisins.

Að sögn fréttamiðlanna tveggja hefur Samherji hagnast verulega á starfseminni í Namibíu og notfært sér alræmt skattaskjól til að koma hagnaði úr landinu.

Bernhard Esau, sjávarútvegsráðherra Namibíu.
Bernhard Esau, sjávarútvegsráðherra Namibíu. Mynd/Skjáskot úr þætti Kveiks

Fram kemur á Stundinni að einn þeirra sem hafa þegið greiðslurnar frá Samherja sé James Hatuikulipi, stjórnarformaður ríkisfyrirtækisins Fishcor sem úthlutar kvóta til útgerðarfélaga í landinu. Frændi James og tengdasonur sjávarútvegsráðherrans, Tamson „Fitty“ Hatuikulipi, er einnig sagður hafa fengið greitt. Þriðji maðurinn er núverandi dómsmálaráðherra Namibíu, Sacky Shangala, en hann var meðal annars eigandi að einu fyrirtæki sem fékk greitt frá Samherja. Fjórði aðilinn er Mike Nghipunya, forstjóri Fishcor.

Namibíska stofnunin ACC, sem rannsakar spillingu, er með málið á sínu borði, auk efnahagsbrotadeildar lögreglunnar í landinu. Angar málsins eru einnig til skoðunar í fleiri löndum, meðal annars hjá norsku efnahagsbrotadeildinni Økokrim vegna gruns um peningaþvætti innan samstæðu Samherja og hjá embætti héraðssaksóknara hér á landi.

Jóhannes Stefánsson.
Jóhannes Stefánsson. Ljósmynd/Skjáskot

Jóhannes Stefánsson, sem var rekstrarstjóri Samherja í Namibíu á árunum 2012 til 2016, segir að um mútugreiðslur sé að ræða en greiðslurnar eru kallaðar „ráðgjafagreiðslur“ hjá Samherja. „Þetta er bara glæpastarfsemi. Þetta er skipulögð glæpastarfsemi,“ sagði Jóhannes í viðtali við Kveik. „Þeir eru að græða á auðlindum landsins og taka allan peninginn út úr landi til að fjárfesta annars staðar og þá í Evrópu eða Bandaríkjunum.“

Jóhannes viðurkenndi jafnframt að hafa brotið lög fyrir hönd Samherja. 

Rasískt viðmót

Alvin Mosioma, framkvæmdastjóri Tax Justice Network Africa, hafði þetta að segja við Kveik um starfsemi Samherja í Namibíu: „Hroki fyrirtækisins er hneykslanlegur. Þeir eru blygðunarlausir og í raun mætti segja að viðmót stjórnenda félagsins til namibísku þjóðarinnar sér rasískt og minni á nýlenduherra.“  

Gögn sem Wikileaks hefur birt um Samherja og starfsemina í Namibíu

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert