Reynsla af smáhýsum sögð skelfileg

Úti á Granda í Reykjavík má finna smáhýsi og hefur …
Úti á Granda í Reykjavík má finna smáhýsi og hefur umgengni verið misjöfn. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Verktakafyrirtækið Þingvangur hefur sent Faxaflóahöfnum erindi þar sem úthlutun lóða og breyting á deiliskipulagi á Köllunarklettsreit í Reykjavík er mótmælt.

Snýr breytingin að því að koma fyrir nokkrum smáhýsum fyrir skjólstæðinga velferðarsviðs borgarinnar.

Í bréfi verktakafyrirtækisins er reynsla starfsmanna af íbúum smáhýsa við Fiskislóð lýst og er hún sögð vera „hreint út sagt skelfileg“.

Tillögur um smáhýsi í Skógarhlíð og á Veðurstofuhæð voru til umræðu á fundi skipulags- og samgönguráðs sl. miðvikudag. Formaður velferðarráðs segir að verið sé að leita að svæðum „um alla borg undir þessi hús,“ en um 70 manns bíða húsnæðis, að því er fram kemur í  umfjöllun um mál þessi í Morgunblaðinu í dag

Á fundinum lagðist fulltrúi Miðflokksins gegn hugmyndunum. Er staðsetningin sögð handahófskennd. Heiða Björg Hilmisdóttir, formaður velferðarráðs, segir smáhýsi henta sumum einstaklingum betur en að búa í fjölbýlishúsi.

„Við erum að leita að svæðum um alla borg undir þessi hús og viljum ekki hafa of mörg á sama stað,“ segir hún og bætir við að staðsetningar séu ekki handahófskenndar, líkt og fram kom í bókun Miðflokksins. Leitað sé að 20 lóðum og eru það um 70 einstaklingar sem bíða húsnæðis.

Faxaflóahafnir eru eigandi Köllunarklettsreits. Gísli Gíslason, hafnarstjóri Faxaflóahafna, segir smáhýsin úti á Granda „ekki gallalaus“ og að umgengni þar hafi verið mismunandi í gegnum tíðina. Hann segist þó vera opinn fyrir því að skoða byggingu smáhýsa á Köllunarklettsreitnum.

Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins bókaði á fundinum samkvæmt fundargerð: 

„Fulltrúi Miðflokksins leggst gegn því sem að  virðist vera handahófskennd staðsetning smáhýsa í borgarlandinu. Reynslan sýnir að smáhýsi hafa að mestu verið úthlutuð einstaklingum sem eiga við mikinn fíknivanda að stríða og verið algjörlega eftirlitslaus. Það er staðreynd. Þetta eru einstaklingar sem þurfa hjálp og eftirlit. Ekki eftirlitslaus smáhýsi eða gáma í jaðri byggðar og við hraðbrautir borgarinnar. Hér þarf að vanda til verks og huga að öllum þáttum.

Fulltrúi Pírata, fulltrúi Viðreisnar og fulltrúi Samfylkingarinnar gagnbóka: 

Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Viðreisnar fagna uppbyggingu og staðsetningu nýrra smáhýsa í borginni. Verkefnin eru undir eftirliti velferðarsviðs sem er með sérhæfða þjónustu og teymi fyrir þá einstaklinga sem þar munu búa,“ segir í fundargerðinni en hana má lesa hér.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert