Safna saman snjó í Bláfjöllum

Frá brekkunum í Bláfjöllum.
Frá brekkunum í Bláfjöllum. mbl.is/Haraldur Jónasson/Hari

Talsvert af snjó féll í Bláfjöllum í nótt og áfram mun snjóa næstu daga. Öllum snjó sem þar fellur er safnað saman og þó að of snemmt sé að spá fyrir um opnun skíðasvæðisins er starfsfólk þar bjartsýnt.

„Það féll ótrúlega mikið í nótt,“ segir Einar Bjarnason, rekstrarstjóri í Bláfjöllum. „Það mikið að við erum að búa til snjórastir.“

Með því á Einar við að þeim snjó sem fellur er ýtt til með gröfu og þannig búnir til snjóhryggir sem meiri snjór safnast síðan í. Hann segir að nú snjói í fjöllunum og áframhaldandi snjókomu sé spáð í vikunni. „Við erum svo glöð, að ég á bara ekki orð til að lýsa því,“ segir Einar sem er staddur í snjókomunni Bláfjöllum. „Þetta er fyrsti vetrarboðinn.“

Hann sagði of snemmt að segja til um hvenær svæðið verði opnað, en vonandi verði það fyrr en síðasta vetur, þegar fyrsti opnunardagur Bláfjalla var 23. janúar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert