Setja á fót stýrihóp vegna fíkniefnamála

Fíkniefni. Mynd úr safni.
Fíkniefni. Mynd úr safni. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum í morgun að setja á fót stýrihóp um samræmingu viðbragða vegna fíkniefnamála. Þetta kemur fram í frétt á vef Stjórnarráðsins.

Er stýrihópnum ætlað að tryggja gott samstarf á milli ráðuneyta og stofnana í þessum málaflokki hvað varðar gagnkvæma upplýsingagjöf, forvarnir, meðferðarúrræði og fleira. 

Hópinn munu skipa fulltrúar frá forsætisráðuneyti, heilbrigðisráðuneyti, félagsmálaráðuneyti, mennta- og menningarmálaráðuneyti og dómsmálaráðuneyti.

Segir í fréttinni að samspil heilbrigðiskerfis, félagslegs kerfis, menntakerfis og löggæslu og tollgæslu í forvörnum og viðbrögðum almennt við fíknivanda sé forsenda fyrir því að raunverulegur árangur náist.

Þá á að koma á fót samtengdu viðbragðskerfi stofnana sem að málinu koma þar sem stofnanir vinna sameiginlega að málum tengdum fíkniefnavanda.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert