Sóttu þrotabú bætur til endurskoðunarfyrirtækja?

Þorsteinn Víglundsson spyr hvort þrotabú föllnu bankanna hafi sótt bætur …
Þorsteinn Víglundsson spyr hvort þrotabú föllnu bankanna hafi sótt bætur til endurskoðunarfyrirtækja þeirra. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Hafa þrotabú föllnu bankanna sóst eftir bótum frá þeim endurskoðunarfyrirtækjum sem árituðu reikninga þeirra misserin fyrir hrun? Þorsteinn Víglundsson, þingmaður Viðreisnar, lagði þessa fyrirspurn fyrir fjármála- og efnahagsráðherra í síðustu viku. Spurði þingmaðurinn einnig í fyrirspurn sinni hvort þrotabúin hafi fengið bætur með samningum eða dómum, hafi þau á annað borð sóst eftir slíku.

„Þetta er bara sett fram til upplýsingar um það hvort sóst hafi verið eftir slíkum bótum eða ekki,“ segir Þorsteinn í samtali við mbl.is.

Sjálfur kveðst hann ekki vita til þess að slíkt hafi verið gert. Það veki hins vegar alltaf upp spurningar í málum sem þessum þar sem þrálát umræða hafi verið um það hvort ársreikningar bankanna hafi ekki gefið rétta mynd af stöðu þeirra. „Það hlýtur að kalla á það hvort rétt hafi verið staðið að öllum málum og í slíkum tilvikum er langlíklegast að slík athugun hafi farið fram hjá þrotabúunum,“ segir hann. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert