Þreyttur á bólgnum yfirlýsingum

Ágúst Ólafur Ágústsson.
Ágúst Ólafur Ágústsson. mbl.is/Hari

„Umræðan um fjárlagafrumvarpið er hið þriðja í röðinni hjá núverandi ríkisstjórn og sem fyrr einkennist frumvarpið af skammsýni og brostnum loforðum,“ sagði Ágúst Ólafur Ágústsson, þingmaður Samfylkingarinnar, og framsögumaður fyrsta minnihluta fjárlaganefndar á Alþingi.

Í ræðu sinni dró hann fram það sem hann kallaði tíu vondar fréttir í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar fyrir árið 2020.

Hann nefndi að Háskóli Íslands, Háskólinn í Reykjavík, Listaháskólinn og Háskólinn á Akureyri fá nánast sömu raunupphæð og þeir fengu í fyrra. Bætti hann við að lækkun sé á heildarfjármagni til framhaldsskóla á milli ára.

Hann sagði að þrátt fyrir augljósa þörf hjá Landspítalanum vilji ríkisstjórnin ná auknum fjármunum úr heilbrigðiskerfinu með aðhaldi. Einnig benti hann á að loforð um að afnema krónu á móti krónu-skerðingu gagnvart öryrkjum sé enn ekki fjármagnað að fullu í frumvarpinu. „Enn eru öryrkjar látnir bíða eftir réttlætinu,“ sagði hann.

Næst benti Ágúst á að endurgreiðsla vegna kvikmyndagerðar verði lækkuð um tæp 30% og að framlög, m.a. til Tækniþróunarsjóðs, Innviðasjóðs og Rannsóknarsjóðs lækki. „Hvers konar pólitík er þetta. Það er verið að lækka endurgreiðsluna sem í sjálfu sér býr til peninga,“ sagði hann um lækkun á endurgreiðslunni til kvikmyndagerðar.

Lögreglumaður á ferðinni.
Lögreglumaður á ferðinni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Í sjötta lagi nefndi hann að framlög til Persónuverndar, skattrannsóknarstjóra, Ríkisendurskoðunar og almennrar löggæslu lækki þrátt fyrir að færri lögreglumenn séu núna en fyrir 10 árum, fjöldi ferðamanna hafi fimmfaldast og að Íslendingum hafi fjölgað um tugi þúsunda á þessum tíma.

Ágúst hélt áfram og sagði einungis gert ráð fyrir því að opinberir starfsmenn fái 3% launalækkun. Þetta þýði kjararýrnun ef verðbólga fari yfir 3% en þegar frumvarpið var lagt fram hafi einmitt verið gert ráð fyrir hærri verðbólgu en 3%. Hann tók fram að verðbólguspáin hafi núna lækkað niður í 2,6%.

Þingmaðurinn gagnrýndi að veiðileyfagjöldin eigi að lækka á milli ára. Það sé óumdeilt og sagði hann einnig að eyða þurfi miklu meiri peningum í umhverfismál. Þau séu einungis 2% af fjárlögunum og skógræktin lækki m.a. á milli ára.

Loks minntist hann á sérstaka aðhaldskröfu á sjúkrahús, öldrunarstofnarnir og skóla.

„Ég er orðinn svolítið þreyttur á þessum bólgnu yfirlýsingum ráðherranna sem eiga sér kannski lítil stoð í fjárlagafrumvarpinu þegar á reynir,“ sagði hann og bætti við skömmu síðar: „Það er margt í þessu frumvarpi sem þarf ekki að lenda í skotgröfum stjórnmálaflokkanna.“

Logi Einarsson.
Logi Einarsson. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þrettán breytingartillögur 

Í morgun kynnti Samfylkingin 13 breytingartillögur við fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar  upp á 20 milljarða. Tillögurnar eru að öllu leyti fjármagnaðar.

„Fjárlagafrumvarpið opinberar vanmátt ríkisstjórnarinnar til að takast á við ójöfnuð annars vegar og framtíðina hins vegar. Félagslegir innviðir samfélagsins eru vanræktir, heilbrigðisstofnanir og framhaldsskólar fá raunlækkanir og barnafólk og öryrkjar skildir eftir. Í stað þess að styrkja tekjustofna í efnahagsuppgangi og búa í haginn er nú gerð aðhaldskrafa á opinbera grunnþjónustu,“ segir m.a. í tilkynningunni.

„Við leggjum til breytingar til að gera fjárlögin framsæknari. Tillögurnar snúa annars vegar að því að sækja fram; á sviði menntunar, nýsköpunar og í loftslagsmálum. Hins vegar snúa þær að því að verja velferð almennings; barnafjölskyldur, heilbrigðisþjónustu og þau sem standa höllum fæti,“  segir Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, í tilkynningunni.

mbl.is