Tilkynnt um grunsamlegar mannaferðir

Rólegt var á næturvaktinni hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Tilkynnt var um eitt innbrot í ökutæki í miðborginni en bifreiðin var staðsett í bílastæðahúsi. Lögregla fann stuttu síðar alla þá muni sem stolið hafði verið þar skammt frá.  

Nokkuð hefur verið tilkynnt til lögreglu um grunsamlegar mannaferðir í nótt. Lögreglan vill því hvetja íbúa höfuðborgarsvæðisins til að gæta vel að eignum sínum og gera ráðstafanir til að koma í veg fyrir tjón vegna þjófnaðar, að því er segir í dagbók lögreglunnar. 

mbl.is