Töfðu umferð vegna fyrirhugaðrar skólalokunar

Töluverðar tafir urðu á umferð í norðanverðum Grafarvogi í morgun …
Töluverðar tafir urðu á umferð í norðanverðum Grafarvogi í morgun vegna mótmæla gegn skólalokun. Ljósmynd/Aðsend

Þó nokkrar tafir urðu á umferð í norðanverðum Grafarvoginum í morgun þegar foreldrar barna í þeim hluta hverfisins mótmæltu fyrirhugðum breytingum á skólahaldi og lokun Kelduskóla.

Að sögn lögreglu skapaðist töluverð umferðarteppa á Strandveginum frá hringtorginu við Mosaveg og Korpúlfsstaðarveg og út Víkurveg í um hálftíma í morgun. Voru lögreglumenn á staðnum til að fylgjast með mótmælunum sem fóru þó friðsamlega fram, þó þeir sem þar voru á leið til vinnu og skóla væru missáttir með tafirnar.

Boðað var til mótmælanna í gær á Facebook og fólu þau í sér að mótmælendur óku sem leið lá frá áðurnefndu hringtorgi upp í Kelduskóla Vík og þaðan í Vættaskóla Engi oftar en einu sinni til að sýna fram á hversu mikið umferð og mengun muni aukast verði af fyrirhuguðum breytingum.

Borg­ar­yf­ir­völd telja að vegna fá­menn­is í Keldu­skóla — Korpu sé ekki hægt að halda úti þeim gæðum náms, kennslu og fé­lag­steng­inga sem sviðið telji æski­leg. Sam­kvæmt upp­lýs­ing­um frá Reykja­vík­ur­borg er 61 nem­andi í Keldu­skóla — Korpu í 1.—7. bekk.

Nemendur í 7. bekk Kelduskóla Korpu sendu Degi B. Eggertssyni borgarstjóra svo opið bréf í morgun þar sem þeir segja ekki sanngjarnt að það þurfi mögulega að loka skólanum af því að þeir séu fáir.

„Kennarar okkar missa vinnuna sína og við börnin þurfum að labba yfir mjög hættulegar götur. Við höfum verið að læra um barnasáttmálann og í honum stendur að það eigi að hlusta á skoðanir barna og taka þeim alvarlega. Okkur líður vel í skólanum og okkur þykir vænt um skólann okkar,“ segir í bréfinu sem er undirritað af 13 nemendum 7. bekkjar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert