„Verða dregnir til ábyrgðar“

María Heimisdóttir, forstjóri Sjúkratrygginga Íslands.
María Heimisdóttir, forstjóri Sjúkratrygginga Íslands. mbl.is/Hari

María Heimisdóttir, forstjóri Sjúkratrygginga Íslands (SÍ), hefur sent Unni Pétursdóttur, formanni Félags sjúkraþjálfara, harðort bréf þar sem stofnunin lýsir fullri ábyrgð á hendur sjúkraþjálfurum ætli þeir ekki að virða gildandi ákvæði rammasamnings. Jafnframt verði þeir sjúkraþjálfarar dregnir til ábyrgðar sem kjósi að hundsa ákvæði samningsins um uppsagnarfrest og verð fyrir þjónustu. 

Í bréfinu, sem var sent í gær, kemur einnig fram, að SÍ líti það mjög alvarlegum augum, reynist það rétt vera, að „Félag sjúkraþjálfara hafi með einum eða öðrum hætti sent félagsmönnum sínum gjaldskrá til að starfa eftir frá og með 12. nóvember nk. [frá og með deginum í dag]. Er því SÍ nauðugur sá kostur að tilkynna Samkeppniseftirlitinu grun um hugsanlegt brot á reglum samkeppnislaga er varða ólögmætt verðsamráð.“

María skorar á forsvarsmenn Félags sjúkraþjálfara að láta af þessum fyrirætlunum sínum „enda brjóta þær gegn gildandi ákvæðum í samningi aðila og hugsanlega lögum um samkeppni“.

Fram hefur komið á mbl.is, að samskipti sjúkraþjálf­ara og SÍ séu í upp­námi eft­ir að stofn­un­in til­kynnti á föstudag að sjúkraþjálf­ar­ar væru bundn­ir af ákvæðum ramma­samn­ings næstu sex mánuði — þrátt fyr­ir að samn­ing­ur­inn hefði runnið út 31. janú­ar síðastliðinn.

Sjúkraþjálf­ar­ar sætta sig ekki við að starfa áfram á samn­ingi sem ekki hef­ur verið leiðrétt­ur í 9 mánuði. Þetta ger­ist í fram­haldi af því að boðað var opið útboð á þjón­ustu sjúkraþjálf­ara, sem þeir telja að verði skaðlegt fyr­ir sjúkraþjálf­un í land­inu, að því er kom fram í til­kynn­ingu frá fé­lagi sjúkraþjálf­ara. 

Algert skeytingarleysi um hagsmuni sjúkratryggðra

María segir í bréfinu, að fyrirætlanir sjúkraþjálfara hafi augljóslega verið lengi í undirbúningi og séu þvert á þá stöðu sem SÍ töldu ríkja milli aðila eftir að SÍ féllust á kröfur sjúkraþjálfara um að lengja útboðsfrest til 15. janúar. Þessar fyrirætlanir beri þar að auki vott um „algert skeytingarleysi sjúkraþjálfara um hagsmuni sjúkratryggðra,“ segir í bréfinu, sem er einnig sent til heilbrigðisráðherra. 

María segir enn fremur að SÍ hafi ítrekað sent sjúkraþjálfurum tilkynningu um að SÍ muni starfa eftir ákvæðum rammasamnings við sjúkraþjálfara að undanskildu ákvæði um verðlagsuppfærslur á gjaldskrá. Það hafi ekki sætt mótmælum af hálfu sjúkraþjálfara. María segir að með því að starfa á grundvelli ákvæða rammasamningsins, þrátt fyrir að SÍ hafi fellt niður ákvæði um verðlagsuppfærslur á gjaldskrá, hafi sjúkraþjálfarar í raun viðurkennt að önnur ákvæði samningsins séu í gildi, þar á meðal ákvæði um uppsagnarfrest. 

„SÍ lýsa fullri ábyrgð á hendur sjúkraþjálfurum ef þeir ætla ekki að virða gildandi ákvæði samningsins og benda jafnframt á að þeir sjúkraþjálfarar sem kjósa að hundsa ákvæði samningsins um uppsagnarfrest og verð fyrir þjónustu, verða dregnir til ábyrgðar.“

mbl.is

Bloggað um fréttina