Bæta þarf ímynd LÍN

Yngri námsmenn hafa einna minnst álit á LÍN þegar litið ...
Yngri námsmenn hafa einna minnst álit á LÍN þegar litið er til ímyndar og almennrar umræðu meðal námsmanna um sjóðinn samkvæmt nýrri viðhorfskönnun. mbl.is/Árni Sæberg

Því yngri sem námsmenn eru, því ánægðari eru þeir með rafræna hluta þjónustu Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN), svo sem persónulegri síðu notenda og þjónustu sem snýr að rafrænum umsóknum. Yngri námsmenn hafa jafnframt minnst álit á LÍN þegar litið er til ímyndar og almennrar umræðu meðal námsmanna um sjóðinn.

Þetta kemur fram í viðhorfskönnun um LÍN sem Maskína framkvæmdi fyrir sjóðinn í sumar meðal námsmanna hér á landi og erlendis, greiðenda, ábyrgðarmanna og annarra viðskiptavina sjóðsins. Af 36.056 sem fengu könnunina senda svöruðu 43,2%, eða alls 15.561. Fjöldi viðskiptavina LÍN á hverjum tíma er hátt í 80 þúsund en alls starfa 34 að jafnaði hjá sjóðnum.

Niðurstöður könnunar­innar benda jafnframt til þess að bæta megi þjónustuferla í afgreiðslu kvartana og umsókna um undanþágur auk þess sem bæta þarf ímynd LÍN þegar kemur að upplifun viðskiptavina á því hvort sjóðurinn hafi getu til að koma til móts við óskir þeirra eða ekki. Niðurstöður könnunarinnar benda m.a. til að bæta megi heimasíðu LÍN auk þess sem margir þátttakendur telja sjóðinn geta verið virkari á samfélagsmiðlum, stytt afgreiðslutíma erinda eða a.m.k. upplýst viðskiptavini betur um afgreiðslutíma beiðna sem eru mismunandi eftir álagstímum hjá sjóðnum.

Samkvæmt niðurstöðum könnunarinnar felast helstu styrkleikar LÍN í rafræna hluta þjónustu sjóðsins, m.a. á persónulegri síðu notenda (Mitt LÍN) og í þeirri þjónustu sem snýr að rafrænum umsóknum og gagnaskilum. Grafík/LÍN

Þá er jafnframt ljóst að kynna þarf betur fyrir námsmönnum hvað felst í því að taka lán hjá sjóðnum, s.s. hvað sé átt við með verðtryggingu og tekjutengingu auk fleiri atriða sem nauðsynlegt er að hafa í huga áður en stofnað er til lánaskuldbindinga.

Aldrei áður hefur svo viðamikil könnun sem þessi verið framkvæmd fyrir sjóðinn en hún hefur að geyma níutíu spurningar um margvísleg atriði sem snerta hagsmuni lántakenda og umboðsmanna þeirra varðandi ýmsa þjónustu LÍN til að heyra viðhorf og greina þau tækifæri þar sem gera megi betur til að bæta þjónustuna. Í tilkynningu frá LÍN segir að almennt megi segja að LÍN geti í heild vel unað við svör þátttakenda og og ýmis tækifæri blasa við þar sem gera má úrbætur.

mbl.is