Benda hver á annan

Baráttuhópurinn mætir á fund dómsmálaráðherra í morgun.
Baráttuhópurinn mætir á fund dómsmálaráðherra í morgun. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Við höfum beðið í níu mánuði eftir fundi hér í ráðuneytinu til að ræða fimm kröfur í tengslum við ástand flóttafólks og leiðir til að gera líf þess bærilegra hér,“ segir Eyrún Ólöf Sigurðardóttir, sem sat fund með dómsmálaráðherra í morgun ásamt fulltrúum úr hópi flóttafólks.

Eyrún ræddi við blaðamann að loknum fundi hennar og félaga hennar með Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur dómsmálaráðherra í morgun.

Eyrún segir kröfurnar sem komið var með á fundinn fimm: Það eigi að stöðva brottflutning flóttafólks til Grikklands og Ítalíu þar sem aðstæður fólks á flótta séu skelfilegar. Það eigi að stöðva brottflutning á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar vegna þeirra sem hafa fengið neikvætt svar um ósk í hæli í öðru landi; allir eigi að fá mál sín tekin efnislega fyrir hér á landi.

Auk þess nefndi Eyrún úrbætur vegna vinnumála, heilbrigðisþjónustu og einangrunar flóttafólks.

„Það tekur oft langan tíma fyrir fólk að fá úrlausn sinna mála og á meðan fólk bíður getur það ekki unnið. Flóttamenn fara fram á að allir sem sæki um hæli hér fái tímabundna kennitölu og möguleika á því að vinna hér, eins og er í mörgum öðrum ríkjum Evrópu,“ segir Eyrún.

Hópurinn eftir fundinn í morgun.
Hópurinn eftir fundinn í morgun. mbl.is/Jóhann

Áslaug Arna sagðist ætla að ræða þessi mál við félagsmálaráðherra. Eyrún segir að úrbætur á sviði vinnumála myndu laga marga hluti, eins og til að mynda einangrun flóttafólks.

„Fólk sem býr til að mynda á Ásbrú hefur bent á að þeir sem sækja um hæli hér á landi, og eru vistaðir í Ásbrú, hafa ekki sama aðgang að almenningssamgöngum til höfuðborgarinnar eins og Íslendingar, enda nánast tekjulausir,“ segir Eyrún.

Spurð hvort baráttuhópurinn sé bjartsýnn eftir fundinn segir Eyrún að þau hefðu viljað frekari skuldbindingu frá ráðherra.

„Hún sagðist ætla að skoða þetta allt saman en benti á að hún væri nýtekin við embætti og þyrfti tíma,“ segir Eyrún sem segir alla í stjórnsýslunni benda hver á annan:

„Eitt ráðuneyti bendir á annað og ein ríkisstjórn bendir á aðra. Útlendingastofnun segist bundin af lögum og löggjafinn segir Útlendingastofnun eiga að sinna ákveðnum atriðum. Allir benda hver á annan. Það þarf pólitískan vilja til að bæta úr þessum málum. Það þarf að koma í ljós hvort hann er til staðar eða ekki. Við erum í það minnsta ánægð að hafa fengið þennan fund.“

mbl.is