„Erum annaðhvort kærulaus eða grunlaus“

„Það er ömurlegt í fyrsta lagi að horfa upp á …
„Það er ömurlegt í fyrsta lagi að horfa upp á það að þau lendi í klónum á spilltu kerfi innanlands en auðvitað viðurstyggð ef auðugir aðilar af Vesturlöndum og jafnvel héðan frá Íslandi séu að nýta sér veika innviði,“ segir Logi. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Ég veit ekki hvort þetta sé fyrsta nýlendubrölt Íslendinga en ég veit alla vega að þetta er óhugguleg birtingarmynd þess þegar græðgin ber allt annað ofurliði,“ segir Logi Einarsson, þingmaður og formaður Samfylkingarinnar um meintar mútugreiðslur Samherja í Namibíu sem voru afhjúpaðar í þætti Kveiks í gærkvöldi. 

Mútugreiðslurnar eiga að hafa farið í vasa ráðamanna í Namibíu í skiptum fyrir kvóta og almenna velvild. Logi telur að málið veki upp spurningar um auðlindastýringu Íslendinga. Hann ætlar að kalla eftir upplýsingum um það hvernig eftirliti með íslenskum fyrirtækjum sem stunda viðskipti í kjölfar þróunarsamvinnu er háttað.

„Auðvitað eru þessar ásakanir grafalvarlegar og maður fyllist óhug. Þetta er þjóð sem er rík af auðlindum en hefur verið fátæk og arðrænd í mjög langan tíma. Svo brýst hún til sjálfsstjórnar og við komum að þróunarsamvinnustofnun á þeim tíma til þess að reyna að byggja upp auðlindastýringu þeirra,“ segir Logi í samtali við mbl.is.

„Viðurstyggð“ ef auðugir aðilar nýti sér veika innviði

Íslendingar sinntu þróunaraðstoð í Namibíu á árunum 1990 til 2010 og styrktu Namibíu um 1,6 milljarða króna á þessum tíma. Um helmingur fjárhæðarinnar, 672 milljónir, var nýttur til uppbyggingar sjómannaskóla sem átti að hjálpa innfæddum að stunda útgerð. Í frétt Stundarinnar sem birtist í morgun kemur fram að meintar mútugreiðslur Samherja hafi verið hærri en upphæðin sem fór í sjómannaskólann. 

„Það er ömurlegt í fyrsta lagi að horfa upp á það að þau lendi í klónum á spilltu kerfi innanlands en auðvitað viðurstyggð ef auðugir aðilar af Vesturlöndum og jafnvel héðan frá Íslandi séu að nýta sér veika innviði. Þetta er bara ótrúlegt og ömurlegt. Það þarf að komast til botns í þessu máli, alveg algjörlega,“ segir Logi.

Sýni mikilvægi auðlindaákvæðis

Hann telur að málið sýni fram á að skoða þurfi auðlindastýringu hérlendis. 

„Mér finnst líka að þetta beini sjónum að okkar auðlindum og okkar auðlindastýringu. Það hlýtur að verða viðfangsefni stjórnmálanna enn frekar en áður að knýja á um réttláta auðlindastýringu, auðlindaákvæði í stjórnarskrá og umræðu um hlut þjóðarinnar í henni eða þeim auðlindunum.“

Logi ætlar sér að kalla eftir upplýsingum frá utanríkisráðherra af tilefni þessa máls. 

„Ég mun sem nefndarmeðlimur í utanríkismálanefnd kalla eftir upplýsingum frá ráðherra um það með hvaða hætti við fylgjum eftir málum þar sem við höfum verið í þróunarsamvinnu og með hvaða hætti er fylgst með því hvernig íslensk fyrirtæki stunda viðskipti með vitneskju og jafnvel í samstarfi við stjórnvöld í kjölfar þróunarsamvinnu,“ segir Logi.

Spurður hvort þetta mál, ásamt því að Ísland hafi verið sett á gráan lista FAFT yfir ríki sem þykja ekki hafa gripið til full­nægj­andi aðgerða gegn pen­ingaþvætti og fjár­mögn­un hryðju­verka, bendi ekki til þess að hnökrar séu á eftirlitskerfi Íslendinga segir Logi:

„Það blasir við að við erum annaðhvort kærulaus eða grunlaus og höfum ekki tekið þessa hluti alvarlega. Mál er lúta að skattaundanskotum og hvítþvotti peninga og öðru slíku almennt, það er auðvitað eitthvað sem við þurfum að taka alvarlega.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert