Þrengingar og ný staðsetning á strætóskýli við Hagatorg í Vesturbæ Reykjavíkur veldur því að strætó þarf nú að stoppa á akstursleið um hringtorgið til að hleypa farþegum inn og út úr vagninum.
Að stöðva ökutæki á hringtorgi er, samkvæmt umferðarlögum, ekki heimilt. Borgin segir að ekki sé „um hefðbundið hringtorg að ræða“ og því verður strætóskýlið að óbreyttu ekki flutt annað.
Aðalvarðstjóri í umferðardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu segir lögreglu þurfa að skoða málið og koma ábendingum á framfæri við Reykjavíkurborg. Sérfræðingur í umferðaröryggismálum segir borgina vera að brjóta lög og að hann eigi ekki von á öðru en að flytja þurfi skýlið á annan stað.