Kafarar að störfum í Landeyjahöfn

Þil úr bryggjunni fór í sjóinn og var fyrir leguplássi …
Þil úr bryggjunni fór í sjóinn og var fyrir leguplássi Herjólfs. mbl.is/Árni Sæberg

Vegagerðin þurfti í dag að kalla út kafara til að fjarlægja brak úr bryggjunni í Landeyjahöfn svo að Herjólfur gæti lagst að ekjubrúnni. Þil úr bryggjunni hafði fallið í höfnina ásamt keðjum og dekkjum sem kom í veg fyrir að Herjólfur gæti lagst þar að.

„Það fór þil úr hafnargarðinum og féll í höfnina og var fyrir leguplássi Herjólfs þannig að það þurfti kafari að fara niður að ná i þilið og dekk og keðjur sem héngu á því til að við kæmum skipinu að ekjubrúnni,“ sagðir Guðbjartur Ellert Jónasson, framkvæmdastjóri Herjólfs ohf., í samtali við mbl.is um málið.

„Við sigldum fyrri ferðina klukkan sjö til Þorlákshafnar og ætluðum svo í beinu framhaldi að sigla hálf þrjú ferðina til Landeyjahafnar en þá kom þetta upp að þilið væri í höfninni og keðjan og dekkið með. Þannig við þurftum að fella niður bæði hálf þrjú ferðina og ferðina klukkan fimm,“ bætti hann við.

Guðbjartur telur að veðurofsinn á sunnudag hafi orsakað að þilið féll í höfnina en telur tjónið óverulegt þó það valdi vissulega óþægindum þegar ekki sé hægt að sigla út af aðskotahlutum sem liggja við bryggjukantinn. Hann vonast til að áætlun haldist í kvöld og að ferðin klukkan hálf átta til Landeyjahafnar verði farin.

Fannar Gíslason hjá Vegagerðinni staðfesti í samtali við mbl.is að búið væri að fjarlægja að minnsta kosti eitt þil úr höfninni. Hann sagðist ekki geta sagt til um hversu mikið tjónið væri en bætti við að „það kostar alltaf að fá kafara og það er fljótt að telja í milljón.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert