Kom á fund Namibíumannanna

Kristján Þór Júlíusson, landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra, var stjórnarformaður Samherja 1996, …
Kristján Þór Júlíusson, landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra, var stjórnarformaður Samherja 1996, þegar hann gegndi starfi bæjarstjóra á Ísafirði, til ársins 1998. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Kristján Þór Júlíusson, þáverandi heilbrigðisráðherra og núverandi sjávarútvegsráðherra, kom inn á fund með þremenningunum frá Namibíu sem unnu að því gegn mútugreiðslum að útvega Samherja kvóta í landinu. Fundurinn var haldinn í höfuðstöðvum Samherja í turninum í Borgartúni í Reykjavík í ágúst árið 2014 og kynnti Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, Kristján Þór sem „sinn mann“ í ríkisstjórninni.  

Þetta hefur Stundin eftir Jóhannesi Stefánssyni, fyrrverandi framkvæmdastjóra útgerðar Samherja í Namibíu, sem er uppljóstrari í Namibíumálinu sem Wikileaks, Kveikur, Stundin og Al Jazeera rannsaka.

„Kristján Þór kom inn á fundinn og Þorsteinn Már sagði brosandi að þetta væri hans maður í ríkisstjórninni. Hann stoppaði ekkert lengi samt, kannski í 10 mínútur til að heilsa upp á Namibíumennina,“ segir Jóhannes. 

Jóhannes segir að á fundinum hafi þeir Sacky Shangala, þáverandi ríkissaksóknari Namibíu, James Hatuikulipi, stjórnarformaður ríkisfyrirtækisins Fiscor, sem útdeilir kvóta í Namibíu, og Tamson „Fitty“ Hatuikulpi, frændi James og tengdasonur Bernhard Esau, sjávarútvegsráðherrra Namibíu. Allir voru þremenningarnir því tengdir ríkisvaldinu í Namibíu og valdaflokknum SWAPO sem Samherji reiddi sig á til að fá kvóta í landinu. Þremenningarnir eru þrír af þeim aðilum sem Samherji hefur greitt mútur til að tryggja útgerðarfélaginu hestamakrílskvóta í Namibíu. 

Kristján Þór Júlíusson neitar því ekki í samtali við Stundina að hafa hitt Namibíumennina við þessar aðstæður en undirstrikar að hann hafi ekki verið formlegur þátttakandi á fundinum. „Ég hef ekki setið fund með þessum mönnum um starfsemi Samherja enda á ég ekkert erindi á slíkan fund þar sem ég hef ekki haft afskipti af þeirri starfsemi síðan ég sat þar í stjórn fyrir 19 árum síðan. Ég get ekki útilokað að hafa rekist á og heilsað umræddum mönnum ef við höfum verið staddir þarna á sama tíma fyrir rúmum fimm árum,“ segir Kristján í viðtali sem er birt í Stundinni í dag.

mbl.is