Kristján Þór: Ábyrgðin alltaf hjá fyrirtækinu

„Ég lít á það þannig að fyrirtækið beri ábyrgð á …
„Ég lít á það þannig að fyrirtækið beri ábyrgð á öllum sínum málum. Ég get ekki tekið afstöðu til einhverra einstakra þátta í þessu máli. Rannsóknin verður bara að ganga fram af hálfu héraðssaksóknara og skattrannsóknarstjóra og leiða vonandi hið sanna og rétta í ljós í öllum þessum málum,“ segir Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. mbl.is/Hari

„Þetta var bæði sorglegt á að horfa og sömuleiðis gríðarlega mikill áfellisdómur ef þessar ásakanir sem þarna koma fram eiga sér ekki fullnægjandi skýringar. Það er bara þannig,“ segir Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, í samtali við mbl.is, spurður út í viðbrögð hans við umfjöllun um málefni Samherja í Namibíu sem fram kom í fjölmiðlum í gærkvöldi.

Hann segir mikilvægt að málið verði rannsakað ofan í kjölinn, það sé nauðsynlegt fyrir alla aðila málsins. Þá er það einnig „mjög skýrt“ í huga ráðherra að fyrirtæki beri ábyrgð á þeim starfsmönnum sem hjá þeim starfi. „Það er bara mjög einfalt mál. Það er ekkert hægt að vísa ábyrgðinni neitt annað, enda held ég að menn ætli ekki að gera það, eða vonandi ekki,“ segir Kristján Þór.

Hann hefur sjálfur lent í eilítilli orrahríð vegna málsins, vegna vinskaps síns við Þorstein Má Baldvinsson, forstjóra Samherja, og starfa sinna fyrir sjávarútvegsfyrirtækið fyrir hartnær tveimur áratugum, en kannski helst vegna handabanda sem hann átti við namibíska einstaklinga í höfuðstöðum Samherja í Borgartúni ágústmánuði árið 2014.

Kristján Þór segir að hann hafi hvorki verið boðaður né sótt nokkurn fund þá um árið, heldur hafi hann verið beðinn um að taka í höndina á nokkrum einstaklingum er hann var staddur á skrifstofu Samherja.

„Ég var staddur á skrifstofu Samherja í persónulegum erindagjörðum og síðan gerist það þegar þeim samtölum er lokið að þá er ég beðinn um að taka í höndina á einstaklingum af afrískum uppruna, sem kemur svo í ljós að eru Namibíumenn, eins og heimildarmaður Kveiks í gær upplýsir í Stundinni. Þetta var fyrir rúmum fimm árum og ég átti kurteisislegt spjall í tíu mínútur um daginn og veginn. Ég vil bara undirstrika það að þessi fundur snerist ekkert um einhver viðskipti eða annað þvíumlíkt og ég er fyrst að heyra af þeim núna þegar ég fæ þennan tölvupóst frá Stundinni í síðustu viku,“ segir Kristján Þór og vísar til fyrirspurnar sem hann fékk frá Inga Frey Vilhjálmssyni blaðamanni Stundarinnar um fundinn.

Eðlilegt að fólk spyrji út í hans stöðu

Hann segist alls ekkert hafa að fela. „Í mínum huga er það grundvallaratriði í þessum efnum, hvað mig snertir, að það sé óumdeilt að ég hafði hvorki aðkomu né vitneskju að þessu máli að nokkru leyti,“ segir sjávarútvegsráðherra, sem segir það þó ekki koma á óvart að fólk spyrji spurninga um stöðu hans og tengsl.

„Það kemur mér ekkert á óvart og mér finnst bara eðlilegt að fólk sé að spyrja út í mína stöðu og með hvaða hætti ég geti tengst þessu máli. Mér finnst ekkert erfitt að ræða það, því að aðkoma mín og vitneskja er afar takmörkuð eins og ég hef lýst í okkar samtali. Í ljósi þess að ég gegni embætti sjávarútvegsráðherra og í ljósi þeirra yfirlýsinga sem ég gaf, um samskipti mín við meðal annars Þorstein Má er ég tók við embætti sjávarútvegsráðherra, þá er ósköp eðlilegt að það sé spurt um þetta en ég vænti þess að menn spyrji líka um það hvernig raunverulegri aðkomu minni eða vitneskju um málið geti verið hætta.“

Spurði Þorstein Má hvort hann ætlaði ekki að bregðast við

Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja.
Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

„Við höfum þekkst í langan tíma, við Þorsteinn Már,“ segir Kristján Þór um samband hans og forstjóra fyrirtækisins sem spjót standa nú á. „Ég þekki margt fólk bæði sem starfar og hefur starfað fyrir Samherja og önnur félög, eðlilega, ég var formaður stjórnar þarna á sínum tíma og sat í stjórn, en að þeim málum hef ég ekkert komið í 19 ár. Frá því að ég gekk úr stjórninni hef ég ekki haft nein afskipti af starfsemi Samherja. En það er engin launung á því að við þekkjumst mjög vel og höfum þekkst í langan tíma við Þorsteinn Már. Ég met samband okkar sem vinskap og gerði sérstaka grein fyrir því er mér var trúað fyrir þessu embætti sjávarútvegsráðherra.“

Kristján hefur rætt við Þorstein Má frá því ásakanirnar á hendur Samherjasamstæðunni birtust í fjölmiðlum í gærkvöldi.

„Mér er engin launung á því, ég hef bæði spurt hann með hvaða hætti og hvort hann ætli ekki að bregðast við þessu með einhverjum hætti og eins hvernig líðan fólks í kringum hann væri. Hann hefur bent mér á það að fyrirtækið muni láta frá sér fréttatilkynningar þegar það á við og það er nú allt og sumt um þessi samskipti að segja,“ segir Kristján Þór.

Spurður hvort að hann hafi trú á þeim skýringum sem Samherji sendi frá sér í gærkvöldi, um að ábyrgðin á málinu væri fyrst og fremst uppljóstrarans Jóhannesar Stefánssonar, sem hefði „flækt Samherja í viðskipti“ sem mögulega væru ólögmæt, segir ráðherra að hann líti svo á að það sé fyrirtækið sem beri ábyrgð á starfsmönnum sínum.

„Ég lít á það þannig að fyrirtækið beri ábyrgð á öllum sínum málum. Ég get ekki tekið afstöðu til einhverra einstakra þátta í þessu máli. Rannsóknin verður bara ganga fram af hálfu héraðssaksóknara og skattrannsóknarstjóra og leiða vonandi hið sanna og rétta í ljós í öllum þessum málum,“ segir Kristján Þór.

Svarar spurningum þingmanna á morgun

Þingmenn kölluðu eftir því síðdegis í dag að á morgun færi fram óundirbúinn fyrirspurnatími um spillingu og að þar yrði Kristján Þór til svara.

„Ég hef aldrei skorast undan því að taka umræðu við þingið er eftir var kallað,“ segir ráðherra.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert