Lognið á undan storminum

Kort/Veðurstofa Íslands

Fremur kalt loft er yfir landinu og víða frost, einkum inn til landsins. Reikna má með að frostið harðni í kvöld og nótt enda víða hægur vindur og léttskýjað og því mikil útgeislun.

„Éljabakkar ganga inn á land NA-til í dag og verða jafnvel á stangli við NV-ströndina einnig. Í öðrum landshlutum verður bjartur og fallegur dagur. Svipað veðurútlit er fyrir fimmtudaginn en þó minnkandi éljagangur NA-lands. Segja má að þetta sé lognið á undan storminum því skil munu nálgast landið úr vestri með suðaustanhvassviðri og rigningu, fyrst vestast aðfaranótt föstudags. Það hlánar með þessu en getur tekið tíma fyrir vindinn að koma hreyfingu á kalda loftið og því ekki ólíklegt að úrkoman byrji sums staðar sem snjókoma eða slydda.

Þegar skilin ganga yfir landið, fyrst V-til um og upp úr hádegi á föstudag, tekur við hægari suðvestanátt með skúrum og síðar éljum og kólnar aftur í veðri. Það stefnir því í útsynning með éljum á laugardag en útlit fyrir að veður skáni á sunnudag,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings á Veðurstofu Íslands.

Norðlæg átt, 3-10 m/s og él NA-til, en annars yfirleitt léttskýjað.
Norðvestan 8-13 austast á landinu á morgun, en annars hægari. Minnkandi él NA-lands og léttir smám saman til, en áfram bjart í öðrum landshlutum.
Gengur í suðaustan 8-15 vestast á landinu annað kvöld, en lægir fyrir austan.
Frost 0 til 5 stig, en víða frostlaust við ströndina.

Á fimmtudag:
Norðlæg átt, 3-10 m/s og léttskýjað, en lítils háttar él með NA-ströndinni. Frost 0 til 8 stig, kaldast inn til landsins. Vaxandi sunnanátt vestast um kvöldið og þykknar upp.

Á föstudag:
Hvöss sunnanátt með talsverðri rigningu og hlýnar, en slydda eða snjókoma í fyrstu fyrir norðan. Hægari vestlæg átt með deginum, fyrst vestan til undir hádegi, með skúrum eða éljum og kólnar aftur.

Á laugardag:
Suðvestlæg átt, 5-13 m/s og él, en léttskýjað austan til á landinu. Víða frostlaust við vesturströndina, en annars frost 1 til 7 stig og kaldast í innsveitum norðaustanlands.

Á sunnudag:
Hæg vestlæg átt og víða bjartviðri, en stöku él við norðurströndina. Hiti breytist lítið.

Á mánudag:
Útlit fyrir suðaustlæga átt og hlýnandi veður. Smáskúrir eða él S-lands, en annars þurrt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert