„Óþolandi að sitja undir upplognum ásökunum“

Skúli Gunnar Sigfússon í Subway.
Skúli Gunnar Sigfússon í Subway. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Skúli Gunnar Sigfússon, eigandi Subway sem ákærður hefur verið af embætti héraðssaksóknara í tengslum við fjármálagjörninga í kringum félagið EK1923, segir ákvörðun saksóknara koma sér verulega á óvart og að ákæran sé algjörlega fráleit. Sakar hann embættið um að elta geðþóttaóskir skiptastjóra búsins sem vísaði málinu til saksóknara.

„Þetta kom mér verulega á óvart enda eru ákærurnar algjörlega fráleitar og óþolandi að sitja undir upplognum ásökunum Sveins Andra Sveinssonar,“ segir Skúli í samtali við mbl.is, en Sveinn Andri er skiptastjóri í þrotabúi EK1923 og vísað málum því tengdu til saksóknara. Skúli var hins vegar eigandi félagsins fyrir þrot þess. „Mér finnst merkilegt að héraðssaksóknari hlaupi á eftir geðþóttaóskum hans.“

Skúli segir að ákæruatriðin snúist um uppgjör á kröfum búsins og eigi heima sem einkamál en ekki í refsirétti. Hafa nokkur riftunarmál tengd uppgjörinu einmitt ratað í dómstóla sem einkamál og segir Skúli sérkennilegt að ákæran komi út núna, stuttu áður en málflutningur í stærsta riftunarmálinu sé tekinn fyrir í Landsrétti.

Skúli gagnrýnir í samtali við mbl.is einnig meðferð málsins hjá saksóknara. „Héraðssaksóknari hefur verið með málið í þrjú ár og kallaði mig einu sinni í skýrslutöku í nokkrar mínútur,“ segir Skúli, en skýrslutakan átti sér stað fyrr á þessu ári. „Þess fyrir utan hef ég ekkert heyrt í þeim,“ segir hann, eða þangað til í dag þegar ákæran var birt. „Þetta eru forkastaleg vinnubrögð og ég hef áhyggjur af því að svona vinnubrögð þrífist í réttarkerfinu,“ segir hann að lokum.

Sveinn Andri Sveinsson, skiptastjóri EK1923.
Sveinn Andri Sveinsson, skiptastjóri EK1923. mbl.is/Eggert

Í skriflegri yfirlýsingu sem Skúli sendi mbl.is fer hann jafnframt yfir þá þrjá ákæruliði sem hann er ákærður fyrir og segir þar að málsmeðferð muni hreinsa hann af öllum ásökunum.

Yfirlýsingu hans má sjá í heild hér að neðan:

Héraðssaksóknari birti mér í dag ákæru fyrir skilasvik, sem ég á að hafa framið í starfsemi EK 1923 ehf., sem áður hét Eggert Kristjánsson hf.

Um er að ræða þrjú tilvik.

  1. Fyrsta tilvikið er vegna þess að starfsmaður Íslandsbanka greiddi fjármuni út af bankareikningi sem var veðsettur Íslandsbanka og félagi í minni eigu. Var það gert með samþykki Íslandsbanka sem allsherjarveðhafa vegna þess að fasteignafélag mitt átti þessa fjármuni. Þetta hefur lánastjóri Íslandsbanka staðfest eiðsvarinn fyrir dómi.
  2. Annað tilvikið er vegna þess að fjármunum vegna ofrukkaðra tollkvóta var skilað af ríkissjóði til Stjörnunnar ehf., sem hafði áður greitt tollkvótann og átti fjárkröfuna, í stað þess að skila henni fyrst til EK 1923 ehf. Landsréttur hefur staðfest að Stjarnan ehf. sé réttmætur eigandi kröfunnar.
  3. Þriðja tilvikið er vegna þess að tveimur erlendum birgjum voru greiddir réttmætir og gjaldfallnir reikningar að fjárhæð 2,5 milljónir.

Upphaflega kæran er komin frá Sveini Andra Sveinssyni, skiptastjóra EK 1923 ehf., sem hefur skammtað sér á annað hundrað milljónir í þóknun, en Héraðsdómur Reykjavíkur ákvað nú á dögunum að hann þyrfti að skila þrotabúinu öllum þeim fjármunum.

Eftir 35 mánuði í meðförum héraðssaksóknara er ákæran gefin út þegar vika er í málflutning í Landsrétti í stærsta máli þrotabúsins, þar sem Sveinn Andri freistar þess að fá mig til að greiða tvisvar fyrir sömu fasteignina. Þá felldi héraðssaksóknari niður tvær kærur á hendur Sveini Andra fyrir nokkrum dögum og kom það ekki á óvart, enda orðin hefð hjá ákæruvaldinu á Íslandi að fella niður kærur á hendur Sveini Andra, sama hversu alvarlegar ásakanir liggja þar að baki.

Tilvikin hér að ofan eru uppgjör á kröfum í þrotabúi og eiga heima í einkamálarétti en ekki í refsirétti. Þessi vinnubrögð eru forkastanleg og embætti héraðssaksóknara til minnkunar. Ákæran er gefin út eftir að hafa verið á borði saksóknara í hátt í þrjú ár. Ég var í eitt skipti kallaður til skýrslutöku hjá embættinu og stóð skýrslutakan í örfáar mínútur. Ég hef aldrei aftur verið kallaður til frekari skýrslutöku. Því miður virðist sem starfsmenn embættisins hafi ekki nennt að rannsaka málið, en hlaupa þess í stað á eftir óskum eða skipunum Sveins Andra, án þess að nokkur einasti glæpur hafi verið framinn.

Málsmeðferðin mun hreinsa mig af þessum ásökunum að fullu, enda eru þær sprottnar af illum vilja og settar fram í annarlegum tilgangi.

Virðingarfyllst,

Skúli Gunnar Sigfússon

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert