Segi sig sjálft að orðspor Íslands hljóti hnekki

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra.
Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra. mbl.is/Árni Sæberg

„Ef að rétt reynist þá eru þessar fréttir auðvitað áfall og háttsemin sem þarna er lýst auðvitað forkastanleg. En núna er náttúrulega mikilvægt að þetta mál verði rannsakað ofan í kjölinn af þar til bærum yfirvöldum,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra um fréttir af aðgerðum Samherja í Namibíu.

Í frétta­skýr­ingaþætt­in­um Kveik sem sýnd­ur var í gær­kvöldi var hul­unni svipt af meint­um mútu­greiðslum Sam­herja sem hafi endað í vös­um ráðamanna í Namib­íu í skipt­um fyr­ir kvóta og al­menna vel­vild. 

„Það hjálpar okkur núna að vera aðilar að margvíslegum alþjóðasamningum sem gerir það [að rannsaka háttsemina] auðveldara. En hvaða áhrif þetta mun síðan hafa á orðspor Íslands á eftir að koma í ljós. Það segir sig alveg sjálft að þetta er ekki gott fyrir orðspor Íslands,“ bætir utanríkisráðherrann við.

Hann segist ekki hafa fengið fyrirspurnir eða verið í samskiptum við erlend ríki vegna málsins í dag.

„Núna á þessu stigi er best að leggja alla áherslu á að viðeigandi aðilar, sem við berum traust til, rannsaki þetta mál,“ sagði hann að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert