Skjálfti upp á 3,1 við Öskju í morgun

Askja.
Askja. mbl.is/RAX

Jarðskjálfti upp á 3,1 varð á Öskjusvæðinu um klukkan hálfátta í morgun og er þetta stærsti skjálftinn sem mælst hefur þar frá 9. nóvember þegar skjálfti upp á 3,4 átti sér stað.

Skjálftahrina hófst á svæðinu 7. nóvember skammt austan við Öskju og hefur staðið yfir síðan. Frá því hrinan hófst hafa um eitt þúsund skjálftar átt sér stað á svæðinu samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofu Íslands. Þar af urðu um 380 í gær.

Rúmlega 20 skjálftar í skjálftahrinunni hafa verið stærri en 2,0. Engin merki eru hins vegar um gosóróa heldur er um brotaskjálfta að ræða samkvæmt Veðurstofunni sem tengist líklega landrekshreyfingum. Jarðskjálftahrinur eru tíðar við Herðubreið og Öskju.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert