Sofnaði líklega eða missti athygli

Slysið varð á Kjalarnesi í janúar í fyrra.
Slysið varð á Kjalarnesi í janúar í fyrra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Líklegt er að ökumaður fólksbifreiðar, sem ekið var í veg fyrir vörubifreið á Kjalarnesi í janúar í fyrra með þeim afleiðingum að ökumaður bifreiðarinnar lést af sárum sínum, hafi annaðhvort sofnað eða misst athygli við aksturinn. Þetta er niðurstaða rannsóknarnefndar samgönguslysa, en skýrsla um banaslysið var birt nýlega.

Áreksturinn átti sér stað um hálftíu að morgni til við bæinn Hvamm. Var fólksbifreiðinni ekið áleiðis til Reykjavíkur og var bílstjórinn, sem var karlmaður á fertugsaldri, einn í bifreiðinni. Skyndilega ók hann bifreiðinni á rangan vegarhelming beint í veg fyrir vörubifreið sem kom úr gagnstæðri átt. Þrátt fyrir viðbrögð ökumanns vörubifreiðarinnar til að reyna að forðast árekstur lenti fólksbifreiðin á framhorni vörubifreiðarinnar og varð mikil aflögun á ökumannsrými bifreiðarinnar.

Báðir ökumenn voru í öryggisbeltum og var áætlaður ökuhraði þeirra beggja á bilinu 85-90 km/klst. Lést ökumaður fólksbifreiðarinnar af völdum fjöláverka sem hann hlaut í slysinu.

Fram kemur í skýrslunni að þótt myrkur hafi verið og hiti við frostmark hafi verið þurrt yfirborð vegar og lítill vindur. Þá hafi ökumaður bifreiðarinnar verið undir áhrifum lyfja í lækningalegum skömmtum sem hann tók að staðaldri, en þau hafi sennilega haft slævandi áhrif á hann. Samkvæmt fylgiseðli lyfjanna skal ekki aka bifreið meðan lyfin eru tekin.

Nefndin segir í ábendingum sínum vegna slyssins að umferð á Vesturlandsvegi á Kjalarnesi sé mikil, að meðaltali 10 þúsund bifreiðar á sólarhring. Telur hún brýnt að aðgreina akstursáttir á vegum þar sem umferð sé svo mikil til að fyrirbyggja framanákeyrslur. Í samgönguáætlun 2019-2033 sé gert ráð fyrir að aðgreining hefjist á þessu ári, en ljúki árið 2022. Nefndin hvetur hins vegar stjórnvöld til að flýta framkvæmdum.

Þá er því beint til sjúklinga að huga að verkunum eða aukaverkjunum lyfja og að læknir upplýsi sjúklinga um áhrif slævandi og róandi lyfja á viðbragðsflýti og einbeitingu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert