Erfitt að greina á milli vinar og forstjóra?

Halldóra Mogensen, þingkona Pírata.
Halldóra Mogensen, þingkona Pírata. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur ítrekað gert mikið úr sjálfstæði sínu frá útgerðum en er engu að síður í miklu óformlegu sambandi við eigendur stærstu útgerðar landsins. Hann er fyrrverandi stjórnarformaður Samherja og æskuvinur núverandi forstjóra félagsins,“ sagði Halldóra Mogensen, þingkona Pírata, á þingi.

Halldóra sagði að það hefði til að mynda verið greinilegt þegar ráðherra var í Kastljósi á RÚV í gærkvöldi. „Hann átti greinilega erfitt með að greina á milli hvenær hann var að tala við vin sinn og hvenær hann var að ræða við forstjóra stærstu útgerðar landsins sem sjávarútvegsráðherra, forstjóra sem kynnir ráðherra sem sinn mann.“

Halldóra spurði ráðherra hvort hann væri sammála höfundi starfshóps forsætisráðherra um eflingu trausts til stjórnmála um að ásýnd skipti öllu máli þegar um sé að ræða mögulega hagsmunaárekstra.

Ráðherra segir að honum sé treyst

Það kann vel að vera að ég eigi erfitt með að greina á milli þess við hvern ég er að tala sem vin minn eða æskufélaga og starfs sem hann gegnir,“ sagði Kristján Þór.

Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegsráðherra.
Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegsráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hann bætti því við að hann hefði aldrei skorast undan því að ganga til funda við fólk og misnoti aðstöðu sína ekki í þágu tiltekinna þröngra hagsmuna.

Ég finn að mér er treyst en á engan hátt skal ég segja að ég sé ekki breyskur maður. Hver er það ekki? Enginn,“ sagði ráðherra.

Gott ef ráðherra þyrfti ekki að sannfæra fólk um að hann sé traustsins verður

Halldóra sagði að það væri gott ef ráðherra þyrfti ekki að standa í þingsal og sannfæra fólk um að hann sé traustsins verður. „Mér finnst það svara spurningunni sem ég spurði, hvort hann teldi að ásýnd skipti öllu máli. Ég tel hann hafa svarað spurningunni með neii, hann telur ásýnd ekki skipta öllu máli, því að það er mjög augljóst að hann treystir sjálfum sér og telur það mikilvægara en hvernig tengslin blasa við öðrum,“ sagði Halldóra.

Hún sagði að Samherji og tengd félög ættu rúmlega 15% af öllum kvóta á Íslandi. Ráðherra hefði sagst ætla að segja frá málum tengdum Samherja í ljósi tenginga sinna þangað. 

En hvernig er hægt að taka einhvers konar ákvarðanir um kvótakerfið í heild sinni, varðandi til dæmis lækkun veiðigjalda, án þess að það hafi veruleg áhrif á nákvæmlega þau félög sem eru tengd ráðherra?“ spurði Halldóra og hélt áfram:

Hversu oft hefur ráðherra þurfti að segja sig frá einstaka ákvörðunum sem tengjast sjávarútvegi vegna tengsla við Samherja og tengd félög? Hversu oft? Mig grunar að svarið sé: Aldrei. En það væri fróðlegt að heyra frá ráðherra.“

Kristján sagði að hann virti sjónarmið Halldóru en að þau væru einfaldlega ekki sammála. Ráðherra sagðist aldrei hafa vikið sæti í málum tengdum Samherja hingað til.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert