Félagsdómur óstarfandi

Félagsdómur er ekki starfandi og því er ekki hægt að …
Félagsdómur er ekki starfandi og því er ekki hægt að taka fyrir stefnu Blaðamannafélagsins á hendur Samtökum atvinnulífsins. Alls sitja fimm dómarar í Félagsdómi og skipar félags- og barnamálaráðherra einn af dómurunum. Ljósmynd/Ríkiseignir

Skipunartími dómara við Félagsdóm rann út um síðustu mánaðamót og engir hafa verið skipaðir í staðinn fyrir þá dómara sem luku störfum 31. október. Félagsdómur er því ekki starfandi og því er ekki hægt að taka fyrir stefnu Blaðamannafélagsins á hendur Samtökum atvinnulífsins.

Þetta kemur fram í svari félagsmálaráðuneytisins við fyrirspurn RÚV. Vera Einarsdóttir, upplýsingafulltrúi félagsmálaráðuneytisins, staðfestir í samtali við mbl.is að dómurinn verði ekki fullskipaður fyrr en í næstu viku.

Blaðamannafélagið stefndi Árvakri, útgáfufélagi Morgunblaðsins og mbl.is, fyrir Félagsdóm vegna meintra verkfallsbrota síðastliðinn föstudag. Mál af slíku tagi fá flýtimeðferð hjá Félagsdómi en ljóst er að ekki verður hægt að taka stefnuna fyrir fyrr en dómarar verða skipaðir. 

„Þá bara haska menn sér í það, þetta er bara tæknilegt úrlausnarefni, auðvitað verður skipaður Félagsdómur, ég trúi því að menn séu að gera það í þessum töluðu orðum,“ segir Hjálmar Jónsson, formaður Blaðamannafélags Íslands, í samtali við mbl.is. Stefna Blaðamannafélagsins er klár að sögn Hjálmars og á hann von á því að hún verði þingfest í Félagsdómi í næstu viku. 

Alls sitja fimm dómarar í Félagsdómi og skipar félags- og barnamálaráðherra einn af dómurunum. Fram kemur í svari ráðuneytisins að gengið verði frá þeirri skipun formlega á morgun. 

Átta klukkustunda vinnustöðvun á morgun

Verkfallsaðgerðir Blaðamannafélagsins hófust síðasta föstudag og eru frekari vinnustöðvanir fyrirhugaðar næstu tvo föstudaga og svo þriðja fimmtudag. Á morgun hefur verið boðað til átta stunda vinnustöðvunar, frá klukkan 10 til 18 og nær hún til blaða- og fréttamanna í Blaðamannafélagi Íslands sem starfa á mbl.is, visir.is og frettabladid.is, auk tökumanna og ljósmyndara hjá Árvakri, Ríkisútvarpinu, Sýn og Torgi.

Tólf klukkustunda verkföll eru boðuð 22. og 28. nóvember. Þarnæsta föstudag nær verkfallið til sömu starfsmanna og í fyrri vinnustöðvunum en 28. nóvember nær vinnustöðvunin til blaðamanna sem sinna störfum við prentútgáfu Morgunblaðsins og Fréttablaðsins auk ljósmyndara og tökumanna. 

Hjálmar Jónsson, formaður Blaðamannafélags Íslands.
Hjálmar Jónsson, formaður Blaðamannafélags Íslands. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Vonar það besta en býr sig undir það versta

Samningafundur Blaðamannafélagsins og Samtaka atvinnulífsins hófst hjá ríkissáttasemjara klukkan hálftvö. Náist ekki samningar eða samkomulag um frestun aðgerða hefst vinnustöðvun klukkan tíu í fyrramálið og stendur hún til klukkan 18. 

„Sáttasemjari á ekki að hleypa okkur út fyrr en við löbbum út með samning,“ segir Hjálmar, sem vonar það besta en býr sig undir það versta.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert