Fólk vill ekki hneykslan heldur aðgerðir

Smári McCarthy, þingmaður Pírata.
Smári McCarthy, þingmaður Pírata. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Sú tíð er liðin að fólk geti skýlt sér bak við furðu eða hneykslan þegar kemur að umræðu um spillingu á Íslandi,“ sagði Smári McCarthy, þingmaður Pírata, þegar hann hóf sérstaka umræðu um spillingu á Alþingi.

Umræðan var til komin vegna meintra brota Samherja í Namibíu en Smári sagði uppljóstranir Stundarinnar og Kveiks um starfsemi Samherja sláandi. Fyrir liggi sannanir um skipulagt arðrán á auðlindum annarrar þjóðar.

Smári sagði að spilling væri víða, vel skjalfest og viðgangist nánast óáreitt hér á landi. Hann sagði tilgangslaust af hálfu þingheims að lýsa aftur og aftur yfir hneykslan vegna Samherjamálsins.

„Við vitum það öll. Fólk vill heyra hvað við ætlum að gera í málinu,“ sagði Smári.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sagði mál Samherja vera til rannsóknar hjá héraðssaksóknara og stjórnvöld tryggi að stofnanir geti rannsakað málið af kostgæfni.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. mbl.is/Hari

Hefur afleiðingar ef lögum er ekki fylgt

Hún sagði það ekki liðið ef íslensk fyrirtæki brjóti lög og reglur og ítrekaði að málið yrði rannsakað ofan í kjölinn. „Lögum þarf að fylgja og það hefur afleiðingar ef þeim er ekki fylgt,“ sagði forsætisráðherra.

Hún sagðist ætla að leggja fram frumvarp á yfirstandandi þingi um varnir gegn hagsmunaárekstrum í Stjórnarráðinu.

Fleiri þingmenn tóku til máls og voru þingmenn stjórnarandstöðunnar allir á því gera yrði betur til að koma í veg fyrir spillingu. Helga Vala Helgadóttir, þingkona Samfylkingarinnar, sagði málið vitanlega vekja upp tilfinningar hjá öllum.

„Við verðum að vakna upp af þessum þyrnirósarsvefni,“ sagði Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, um spillingu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert