Guðni hitti Erdogan

Recep Tayyip Erdogan Tyrklandsforseti og Guðni Bergsson formaður KSÍ.
Recep Tayyip Erdogan Tyrklandsforseti og Guðni Bergsson formaður KSÍ. Ljósmynd/Samsett

Recep Tayyip Erdogan Tyrklandsforseti var meðal áhorfenda á leik Íslands og Tyrklands  í undan­keppni EM í Istanbúl í kvöld og hitti Guðni Bergsson, formaður Knattspyrnusamband Íslands, forsetann á leiknum.

 „Hann sat þarna nánast við hliðina á mér, þannig að ég hitti nú á hann,“ segir Guðni í samtali við mbl.is og játar að þeir hafi ræðst stuttlega við. „Ég var kynntur fyrir honum og við sögðum nokkur orð, en það er ekki hægt að segja að við höfum dottið í mikið spjall. Það var stutt viðkynning og síðan óskaði ég  honum til hamingju eftir leikinn. Það var nú ekki meira en það.“

Leiknum lauk með markalausu jafntelfi, sem þýðir að Ísland á ekki mögu­leika á að kom­ast beint á EM, held­ur bíður um­spil í mars. 

Guðni segist ekki sjá annað en að Erdogan hafi verið sáttur við sína menn. „Enda voru þeir að tryggja sér sæti á EM,“ segir hann. „Það var auðvitað mikið havarí í kringum að hann væri að koma á völlinn og hann nýtur greinilega mikillar hylli í Tyrklandi, alla vegna hjá góðum hluta þjóðarinnar. Það er nokkuð ljóst.“

Erdogan er að sögn Guðna fyrrverandi fótboltamaður og þekktur fótboltaáhugamaður. „Hann var augljóslega meðal sinna stuðningsmanna og það fór ekki framhjá þeim sem nálægt voru,“ segir hann.

Ísland náði ekki að tryggja sér sigurinn sem það þurfti …
Ísland náði ekki að tryggja sér sigurinn sem það þurfti í leiknum við Tyrkland, heldur urðu úrslitin markalaust jafntefli. AFP

Jafnteflið svekkjandi fyrir Ísland

Jafnteflið er hins vegar svekkjandi fyrir Ísland. „Við ætluðum okkur auðvitað þrjú stig í þessum leik eins og öllum leikjum og þurftum sigur til að halda í vonina um að komast á EM upp úr þessum riðli og í úrslitakeppni á næsta ári. Það gekk ekki hins vegar eftir,“ segir Guðni.

Leikur íslenska liðsins var að hans mati engu að síður góður að mörgu leiti. „Hann var taktískur og við lékum af öryggi og festu og fengum tækifæri til að skora þó þau væru ekki mörg hjá okkur frekar en hjá Tyrkjunum.“

Ekki megi heldur gleyma því að Tyrkir séu með mjög öflugt lið og gefi fá færi á sér. „Á endanum dugði  þetta stig þeim til að komast áfram upp úr þessum riðli og við sitjum eftir og þurfum að fara í úrslit á móti Moldóvu. Við viljum auðvitað ljúka riðlinum með sem flest stig,“ bætir Guðni við.

„Síðan horfum við til þess að fara í umspil um sæti á EM og ég held að við getum bara horft bjartsýnir til þess, enda ætlum við okkur að komast á EM á næsta ári. Það er þannig hugur í okkur bæði leikmönnum og stjórnendum.“  

mbl.is