Óttast um starfsframa fari þeir í orlof

Helstu niðurstöður rannsóknarinnar eru að mikill meirihluti foreldra er sammála …
Helstu niðurstöður rannsóknarinnar eru að mikill meirihluti foreldra er sammála um að fæðingarorlofið eigi að skiptast jafnt á milli foreldranna og að báðir foreldrar eigi að setja það í forgang að fara í fæðingarorlof til þess að hafa möguleika á að tengjast nýfæddu barni sínu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Flestir foreldrar á Norðurlöndunum telja að best væri að fæðingarorlofi væri skipt jafnt á milli foreldra. Hvergi á Norðurlöndunum er orlofið jafn stutt og á Íslandi og eru íslenskir foreldrar þeir sem helst vilja að fæðingarorlofið verði lengt. Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýrri norrænni skýrslu um feðraorlof þar sem byggt er á upplýsingum frá um 7.500 norrænum foreldrum og viðhorfi þeirra til fæðingarorlofsins.

Til stendur að lengja fæðingarorlof foreldra á Íslandi og mun Ásmundur Einar Daðason leggja fram frumvarp til laga um breytingu á lögum um fæðingar- og foreldraorlof á haustþingi þar sem lögð verður til lenging á samanlögðum rétti foreldra til fæðingarorlofs úr níu mánuðum í tólf mánuði.

Í frumvarpinu verður gert ráð fyrir að lengingin komi til framkvæmda í tveimur áföngum á árunum 2020 og 2021. Heildarkostnaður við lengingu fæðingarorlofs er áætlaður um fjórir milljarðar króna á ársgrundvelli þegar áhrifin verða að fullu komin fram.

Í skýrslunni Staða norrænna feðra sem norræna ráðherranefndin gefur út kemur fram að Norðurlöndin séu framarlega þegar kemur að réttindum feðra til orlofs. Svíar riðu á vaðið árið 1974 og á þeim tíma var talað um „flauelsfeður“ og var þar vísað til samfestinga kvenna úr flaueli sem voru vinsælir á þessum tíma. Snemma á áttunda áratugnum varaði hópur sálfræðinga foreldra við hættu samfara því að feður tækju fæðingarorlof því börn þyrftu á móður og föður að halda ekki tveimur mæðrum.

Kyn skiptir ekki máli

Guðni Th Jóhannesson forseti Íslands var settur í embætti árið …
Guðni Th Jóhannesson forseti Íslands var settur í embætti árið 2016 og hann hefur aldrei farið leynt með þá skoðun sína að foreldrahlutverkið sé mikilvægt.

Tekið er fram í formála skýrsluhöfunda að þrátt fyrir að talað sé um feður og mæður í skýrslunni skipti kyn engu máli og nauðsynlegt sé að hafa í huga að börn sem búa á heimilum þar sem foreldrar eru gagnkynhneigðir eða hinsegin eru jafn líkleg til þess að alast upp við góðar aðstæður. Það sem skipti máli eru umhyggjusamir foreldrar, af hvaða kyni sem þeir eru.

Helstu niðurstöður rannsóknarinnar eru að mikill meirihluti foreldra er sammála um að fæðingarorlofið eigi að skiptast jafnt á milli foreldranna og að báðir foreldrar eigi að setja það í forgang að fara í fæðingarorlof til þess að hafa möguleika á að tengjast nýfæddu barni sínu.

Forseti Íslands Guðni Th. Jóhannesson flytur ávarp og tekur þátt í pallborðsumræðum á málþingi í Kaupmannahöfn um stöðu feðra, kynjajafnrétti og foreldraorlof í dag í tengslum við útgáfu skýrslunnar og er það norræna ráðherranefndin sem stendur að útgáfu skýrslunnar og málþinginu

Ólík upplifun

Í skýrslunni kemur fram að feður telja að þeir geti annast börn sín jafnt á við mæður og þeir eru, líkt og mæður, yfirleitt sáttir við sinn hlut í umönnun barna. Aftur á móti er munur á milli kynjanna þegar kemur að mati á eigin ábyrgð á heimilishaldi. 65% feðra telja að umönnun barna sé skipt jafnt á milli foreldranna á meðan 45% mæðra er á sama máli. 53% mæðra segja að umönnun barna sé að mestu leyti í þeirra höndum.

Í flestum ríkjum heims er umönnun barna og heimilishald að mestu í höndum mæðra og eru Norðurlöndin þar engin undantekning. Samt sem áður sýnir rannsóknin fram á að flestir feður vilja að ábyrgðinni sé deilt jafnar og þeir telji að þeirra framlag sé svipað og mæðra. Mæður eru hins vegar ekki á sama máli líkt og hér kom fram að framan. Í skýrslunni kemur fram að mikilvægt sé að greina hvað valdi ólíkri upplifun foreldra og hvernig sé hægt að breyta þessu.

Rannsakendur báðu foreldra um að skrá niður hvernig ábyrgðinni er skipt. Má þar nefna daglega rútínu fjölskyldunnar. Svo sem hvaða fötum barnið fer í, hver keyrir og sækir í leikskóla/skóla, hver skipuleggur aksturinn og við hverja barnið leikur. Hver skipuleggur frístundir til að mynda um helgar. Hver hlustar á barnið og bregst við tilfinningum og hugsunum barnsins. Hver sér um að gefa barninu að borða, hreinlæti barnsins og heimilisþrif. Hver sér um að koma barni í rúmið og að það fái þá heilbrigðisþjónustu sem það þarf á að halda.

Þetta leiddi í ljós að langflestir foreldrar, bæði mæður og feður, eru virkir þátttakendur í öllu þessu. Það sem meira er – að feður beri síst minni ábyrgð en mæður á Norðurlöndunum. Samt sem áður virðist hlutur mæðra vera stærri. Það er þær gera hlutina oftar en feður.

Að sögn feðranna sem tóku þátt töldu 55% þeirra að jafnrétti ríkti þegar kæmi að daglegri rútínu en aðeins 33% mæðranna töldu að svo væri. 64% þeirra töldu að þær önnuðust annað hvort öll þessi atriði eða að mestu leyti.

Á milli 66 og 70% feðra töldu að þeir sinntu öðrum liðum, það er tilfinningalegum og líkamlegum þörfum barna sinna jafnt á við mæður þeirra. Þegar svör mæðranna eru skoðuð sést að 46-54% mæðra voru á sama máli. Helmingur mæðra taldi að þessi atriði væru alfarið á þeirra hendi. Aðeins 2-3% mæðra töldu að maki þeirra annaðist þessi atriði að mestu leyti.

Jafnræði eykur hamingju á heimilinu

Hamingjusöm dönsk-ítölsk-japönsk-amerísk og að mjög mörgu leyti íslensk fjölskylda á …
Hamingjusöm dönsk-ítölsk-japönsk-amerísk og að mjög mörgu leyti íslensk fjölskylda á Seyðisfirði. Frá vinstri Ida Feltendal, Jonathan Moto Bisagni og Óskar sonur þeirra. Ljósmynd/Aðsend

Lengd fæðingarorlofs virðist einnig hafa áhrif á hlutdeild foreldra í barnaumönnun því feður sem fara í stutt orlof, eða jafnvel ekkert, segja að maki þeirra hafi annast barnið að mestu. En þeir feður sem taka þrjá mánuði eða lengur í fæðingarorlof segja að jafnræði ríki á heimilinu þegar kemur að börnum.

Bæði feður og mæður eru ánægðari í sambandi ef jafnræði ríkir þegar kemur að umönnun barna á öllu sviðum. Þegar ábyrgðin er að mestu í höndum annars foreldrisins hefur það greinileg áhrif á líðan í sambandi. Ekki bara á samband foreldra heldur einnig upplifun foreldra á sambandið við börn sín og stöðu sína sem foreldri. Feður sem deila ábyrgðinni jafnt á við mæður hafa einnig meiri trú á hæfni sína sem foreldri. Þær mæður sem hafa mesta trú á hæfni sína í foreldrahlutverkinu eru þær sem annast börn sín að mestu. Þegar hitt foreldrið tekur mesta ábyrgð eru mæður oft óöruggar um hæfni sína sem foreldri en um leið ánægðari með stöðu sína á vinnumarkaði.

Eins eru þeir feður sem taka ekki eða stutt fæðingarorlof líklegri til þess að trúa á gamaldags hugmyndir varðandi karlmennskuímyndina. Samkvæmt skýrslunni er það oft þannig að mæður sjá um að fara með börnin til læknis eða leita eftir ráðum hjá vinum og vandamönnum. En feður sem fara í langt foreldraorlof eru miklu líklegri en aðrir feður til þess að lesa sér til, leita aðstoðar og afla upplýsinga um foreldrahlutverkið og uppeldismál.

Ein ástæða þess að karlar fara síður í langt foreldraorlof og jafnvel taka ekkert orlof er sú að þeir óttast um starfsframa sinn og samband við vinnufélaga ef þeir taka feðraorlof. En því lengra orlof sem feður taka því meiri líkur eru á að þeir séu tilbúnir til þess að gera breytingar á vinnutilhögun sinni til þess að annast börn sín betur.

Norðurlöndin hafa lengi staðið framarlega þegar kemur að jafnrétti og fjölskyldumálum í alþjóðlegu samhengi og norrænir feður vilja gjarna taka þátt í umönnun barna sinna strax frá fæðingu. En þeir eru ekki einir því mikill meirihluti feðra í Japan og Brasilíu er á sama máli. Einnig feður í Kanada, Bretlandi og Hollandi. En þrátt fyrir vilja þeirra er staða þeirra ólík eftir löndum, að því er segir í skýrslunni. Þar skiptir líka máli að það þykir sjálfsagt og eðlilegt að feður taki þátt í uppeldi barna. Á meðan 85% sænskra mæðra segja að makar þeirra telji að þeir eigi að hafa jafna aðkomu að umönnun barna þá telja aðeins 65% breskra mæðra að makar þeirri séu á þeirri skoðun.

Ekki að þeir vilji frekar heldur þeir geta það

Meirihluti feðra sem taka þrjá eða fleiri mánuði í fæðingarorlof …
Meirihluti feðra sem taka þrjá eða fleiri mánuði í fæðingarorlof segja að jafnræði ríki á heimilinu. mbl.is/Golli

Það sem geri norræna feður ólíka feðrum í flestum öðrum löndum er ekki að þeir vilji frekar vera með börnum sínum heldur það að norrænir feður geta verið með ungum börnum sínum. Hvergi annars staðar í heiminum er fæðingarorlofið jafn langt og á Norðurlöndunum. Samt sem áður telja norrænir foreldrar að það ætti að vera lengra. Sérstaklega íslenskir foreldrar.

Þrátt fyrir að Norðurlöndin hafi verið frumkvöðlar þegar kom að feðraorlofi eru nokkur önnur OECD-ríki sem bjóða upp á að feður fari í langt foreldraorlof. Í Frakklandi, Portúgal og Belgíu geta feður tekið 20-30 vikur í foreldraorlof og í Japan og Suður-Kóreu er miðað við allt að ár. Aftur á móti er tekjuskerðingin umtalsverð því ekkert ríkjanna gefur þeim kost á að fá greitt nema 60% eða minna af launum sínum úr fæðingarorlofssjóði.

Ríki eins og Chile, Eistland, Grikkland, Ungverjaland, Ítalía, Mexíkó, Pólland, Holland, Spánn, Malta og Rúmenía greiða feðrum full laun í fæðingarorlofi en lengd orlofsins er takmörkuð, allt frá nokkrum dögum í fjórar vikur og aðallega ætlað að gefa feðrum tækifæri til þess að vera viðstaddir fæðingu og fyrstu dagana eftir fæðingu. Aðeins fimm ríki innan OECD eru með lengra feðraorlof en tíu vikur og greiðslur sem eru yfir 65% af launum. Af þeim eru fjögur norræn.

Að sögn feðranna sem tóku þátt töldu 55% þeirra að …
Að sögn feðranna sem tóku þátt töldu 55% þeirra að jafnrétti ríkti þegar kæmi að daglegri rútínu en aðeins 33% mæðranna töldu að svo væri. mbl.is/Kristinn Magnússon

Samkvæmt niðurstöðum rannsóknarinnar tóku 80% mæðra sex mánuði eða meira í fæðingarorlof en aðeins rúmlega 5% feðra tóku svo langt orlof. 56% feðra fóru í fæðingarorlof í einn mánuð eða styttra en aðeins 6% mæðra tóku svo stutt orlof. Flestir feður (60-65%) voru í fæðingarorlofi í tvær til fjórar vikur á meðan 3-4% voru í orlofi í hálft ár eða meira. Finnskir feður eru ólíklegastir til þess að fara í fæðingarorlof og fast á hæla þeirra fylgja íslenskir og norskir feður. Aftur á móti eru feður í Danmörku og Svíþjóð ólíklegir til að fara ekki í feðraorlof. Þeir sænsku eru einnig líklegastir til að fara í lengsta orlofið. Á Íslandi fer aftur á móti hátt hlutfall feðra í orlof í tvo til sex mánuði eða 58,7%.

Íslenskar mæður eru að sama skapi líklegastar til þess að fara í tvo til sex mánuði í orlof en þetta er rakið til þess kerfis sem hér er varðandi skiptingu fæðingarorlofsins í þrjá hluta. Foreldrar á innlendum vinnumarkaði sem eru starfsmenn eða sjálfstætt starfandi eiga sjálfstæðan rétt til fæðingarorlofs í allt að 3 mánuði hvort um sig vegna fæðingar, frumættleiðingar eða töku barns í varanlegt fóstur. Þessi réttur er ekki framseljanlegur. Auk þess eiga foreldrar sameiginlegan rétt á 3 mánuðum til viðbótar sem annað foreldrið getur tekið í heild eða foreldrar skipt með sér.

Í Noregi fara 6% mæðra ekki í fæðingarorlof sem er mun hærra hlutfall en annars staðar á Norðurlöndunum.

Í norrænu skýrslunni er vísað til rannsókna sem sýna fram á að mismunun milli kynjanna auki líkur á óánægju innan sambands para. Í rannsókn sem gerð var meðal hjóna kom í ljós að því lengur sem eiginmaðurinn dvelur í vinnunni upplifi bæði minni hamingju í hjónabandi og um leið sé ósætti algengara hjá þessum hjónum. 

Hefur dómur samfélagsins áhrif?

Með auknu jafnrétti þegar kemur að umönnun barna eykst ánægja feðra í lífinu. Skiptir þar engu hvort um vinnu, samband eða foreldrahlutverkið er að ræða. Ánægja þeirra eykst með auknu jafnrétti. Aftur á móti eru mæður ekki alltaf ánægðari þegar jafnréttið eykst. Til að mynda ef maki þeirra annast heimilishaldið að mestu eru mæður líklegri til að vera ánægðar í vinnunni þó svo þær séu ekki eins ánægðar með stöðu sína sem foreldri.

Höfundar skýrslunnar velta því fyrir sér hvort dómur samfélagsins geti hér haft áhrif. Konur sem setja starfsframa í forgang eru dæmdar harðar en karlar sem það gera. En bæði kynin eru sammála þegar kemur að því að sambandið sé mun betra þegar ábyrgðinni á börnunum er skipt bróðurlega á heimilinu.

Getty Images/iStockphoto

Skýrsluhöfundar segja að ástæðurnar fyrir því að feður ættu að fara í fæðingarorlof séu margar. Þar megi nefna styrkingu sambands föður og barns, að auðvelda móður að snúa aftur til vinnu og að barn tengist fleiru en einu foreldri. Þetta eykur líkur á jafnræði í samböndum og er íslensk rannsókn hér nefnd sem sýni fram á þetta. Meirihluti feðra sem taka þrjá eða fleiri mánuði í fæðingarorlof segja að jafnræði ríki á heimilinu og aðeins 15% þeirra segjast reiða sig á að maki þeirra annist umönnun barna að mestu. Þessu er öfugt farið með þá feður sem ekki fara í fæðingarorlof.

Fæðingarorlof þýðir að viðkomandi er með barni sínu nánast allan …
Fæðingarorlof þýðir að viðkomandi er með barni sínu nánast allan sólarhringinn og verður vitni að stórum viðburðum í lífi barns. mbl.is/Golli

Þrátt fyrir að Norðurlöndin standi framarlega þegar kemur að jafnrétti kynjanna virðast hugmyndir um að feður séu fyrirvinnur og mæður annist heimilið lifa góðu lífi ef marka má niðurstöður könnunarinnar. Því 55% karla og 62% kvenna telja eðlilegt að móðir taki lengra orlof þar sem barnið þurfi meira á móður að halda en föður. Hér eru aftur á móti ólík svör feðra eftir því hvort þeir fóru í fæðingarorlof eður ei. 59% þeirra sem ekki fóru í orlof töldu að barn þyrfti meira á móður að halda en föður en aðeins 35% þeirra sem fóru í orlof voru á þessari skoðun. Skýrsluhöfundar segja að viðhorf sem þessi séu ekki bara hamlandi fyrir konur heldur einnig karla. Þeir eigi oft erfitt með að tjá tilfinningar sínar, séu líklegri til að glíma við þunglyndi og eru almennt ósáttari við sambandið við maka og lífið almennt.

Fæðingarorlof þýðir að viðkomandi er með barni sínu nánast allan sólarhringinn og verður vitni að stórum viðburðum í lífi barns, svo sem fyrsta brosinu og þegar það fer að skríða. Á sama tíma er þetta erfið og mikil vinna og sumir upplifa einangrun og þeim leiðist. Mæður hafa lengi tjáð sig um þessa hluti en feður síður og það er fyrst á síðustu árum sem þeir greina frá þessu í bókum og riti. Hvaða áhrif fæðingarorlofið hefur á samband þeirra. Ekki bara við barnið heldur félaga og vinnu. Þrátt fyrir að feður fari í auknu mæli í fæðingarorlof eru þeir enn líklegri til þess að missa af stórum atburðum í lífi barnsins á fyrstu misserum í lífi þess og sífellt fleiri feður sem ekki fóru í fæðingarorlof tjá sig um að hafa farið á mis við þetta.

Fæðingarorlofið er því ekki bara tækifæri fyrir feður til að mynda náið samband við afkvæmi sín heldur einnig að auka færni þeirra og sjálfstraust þegar kemur að umönnun barna, segir í nýrri skýrslu norrænu ráðherranefndarinnar um stöðu norrænna feðra sem kemur út í dag.

Niðurstöðurnar ættu að vera hvatning fyrir stjórnmálafólk og fyrirtæki í að auðvelda nýbökuðum feðrum að taka fæðingarorlof án þess að þurfa að hafa áhyggjur af neikvæðum afleiðingum á starfsframa og fjárhag, segir Carl Cederström, höfundur skýrslunnar um norræna feður. 

Hann segir einnig að munur sé á milli norrænu landanna þegar kemur að þátttöku feðra í fæðingarorlofi.

Í Danmörku og Finnlandi taka feður um 11 prósent af heildarorlofsdögunum, á Íslandi og í Svíþjóð taka þeir um 30 prósent og í Noregi um 20 prósent. 

Þessi munur helst í hendur við það hvort löndin notast við eyrnamerkt orlof til að hvetja feður til að taka meira fæðingarorlof, eins og Ísland, Svíþjóð og Finnland, eða hvort þau séu með sveigjanlegra kerfi, líkt og Danmörk og Finnland.   

Sérstakt feðraorlof hefur reynst skilvirkasta leiðin til að fá karla til að vera lengur heima með ungbörnin sín – og það hefur svo áhrif á venjur og viðhorf á vinnumarkaði sem og innan fjölskyldunnar, skrifar skýrsluhöfundurinn.

Skýrslan í heild

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert