SA segir gagntilboð BÍ óaðgengilegt

Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir gagntilboð Blaðamannafélagsins hafa ...
Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir gagntilboð Blaðamannafélagsins hafa verið óaðgengilegt. mbl.is/​Hari

„Við náðum ekki saman í kvöld því miður það ber of mikið í milli,“ segir Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins (SA), eftir að slitnaði upp úr kjaraviðræðum SA við Blaðamannafélag Íslands nú í kvöld.

Fundurinn í dag er lengsti fundur sem haldinn hefur verið í kjaraviðræðum BÍ og SA til þessa. Önn­ur lota vinnu­stöðvun­ar BÍ hefst klukkan 10 í fyrramálið og mun hún standa í átta klukku­stund­ir, til kl. 10-18.

Að sögn Halldórs hefur ríkissáttasemjara boðað nýjan fund í kjaradeilunni í upphafi næstu viku. „Væntanlega á þriðjudag og vonandi vinnst þetta áfram þá,“ segir hann.

SA lagði að sögn Halldórs í dag fram tilboð sem hann segir samræmast lífskjarasamningnum líkt og þau sem hafi verið lögð fram gagnvart öðrum viðsemjendum samtakanna. „Það barst gagntilboð frá Blaðamannafélaginu, en það var óaðgengilegt og getur ekki orðið grundvöllur kjarasamnings við Samtök atvinnulífsins,“ segir hann.

mbl.is