Skemmtiferðaskip hafa komið til 22 hafna víða um land

Skemmtiferðaskipið Azorez í höfn í Eskifirði.
Skemmtiferðaskipið Azorez í höfn í Eskifirði. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Ellefu þingmenn úr fjórum flokkum á Alþingi hafa flutt þingsályktunartillögu um gerð stefnu um móttöku skemmtiferðaskipa á Íslandi. Fyrsti flutningsmaður er Albertína Friðbjörg Elíasdóttir, þingmaður Samfylkingarinnar.

Fram kemur í greinargerð með tillögunni að ör vöxtur hafi orðið í íslenskri ferðaþjónustu undanfarin ár en einna hraðastur hafi hann verið í umferð skemmtiferðaskipa og þjónustu við þau. Rekstur skemmtiferðaskipa sé margbrotinn. Alls taka 22 hafnir víðs vegar á Íslandi á móti skemmtiferðaskipum. Langstærstar eru Sundahöfn, Akureyrarhöfn og Ísafjarðarhöfn.

Á vefsíðunni Mælaborð ferðaþjónustunnar, sem Stjórnstöð ferðamála heldur úti, komi fram að undanfarin ár hafi komum skemmtiferðaskipa til landsins fjölgað mikið því að skipakomur voru 284 árið 2014 en 725 árið 2018. Það sem af er árinu 2019 hafa 864 skipakomur verið skráðar.

Í tillögunni er lagt til að Alþingi feli ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra að skipa starfshóp til að móta stefnu um móttöku skemmtiferðaskipa á Íslandi í samráði við aðra ráðherra. Við skipan í starfshópinn verði tryggt að helstu hagsmunaaðilar eigi sæti í hópnum, að því er fram kemur í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert