Sturlungasaga á 150.000 krónur

Sturlunga saga. Búist er við því að bitist verði um …
Sturlunga saga. Búist er við því að bitist verði um þetta eintak.

„Það er alltaf áhugi á þessum skræðum og á þessum netuppboðum fáum við oft nýja kúnna,“ segir Ari Gísli Bragason bóksali.

Nú stendur yfir veglegt bókauppboð á vefnum Uppboð.is. Það er afrakstur samstarfs verslunarinnar Bókarinnar og Foldar uppboðshúss. Á uppboðinu, sem lýkur á sunnudag, er að finna um 150 bækur sem Ari Gísli hefur valið sérstaklega. Hægt er að skoða gripina í Gallerí Fold meðan á uppboðinu stendur.

Ari segir í samtali við Morgunblaðið að eftirtektarverðasti gripurinn sé sennilegast fyrsta útgáfa Sturlunga sögu frá 1809, bæði bindin, en þau hafa verið bundin inn í fallegt roðskinnsband. Verðmat er 150 þúsund krónur. „Ég á von á því að það verði einhver sláttur í kringum hana,“ segir Ari en um hádegisbil í gær höfðu nokkur boð þegar borist, það hæsta upp á 120 þúsund krónur.

Fyrsta útgáfa Njálu verður einnig boðin upp sem og ýmsar gamlar útgáfur af íslenskum biblíum. Má þar nefna Reykjavíkurbiblíuna frá 1869 og svokallaða Weisshús-biblíu sem er með þeim elstu sem komu út á íslensku og prentuð í Kaupmannahöfn árið 1747.

Ari segir að á uppboðinu sé að finna mikið af fallegum og fágætum ljóðabókum, til að mynda eftir Einar Benediktsson, Dag Sigurðarson og Stein Steinarr. Ljóðabók eftir Hannes Hafstein, sem var hans fyrsta bók, er einnig boðin upp í vönduðu skinnbandi.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert