Þingeysku genin sterk

Gunnþórunn Björnsdóttir er 100 ára í dag og byrjar á …
Gunnþórunn Björnsdóttir er 100 ára í dag og byrjar á því að fá sér gott kaffi með Mogganum. mbl.is/​Hari

Ekki er langt síðan talað var um að allt væri fertugum fært en þegar rætt er við Gunnþórunni Björnsdóttur má segja að allt sé 100 ára fært. „Þetta eru eflaust flottu og sterku þingeysku genin,“ útskýrir afmælisbarn dagsins.

Foreldrar hennar voru Rannveig Gunnarsdóttir frá Skógum í Öxarfirði og Björn Kristjánsson frá Víkingavatni. „Þetta voru tvö stórbýli en pabbi var kaupfélagsstjóri á Kópaskeri og þar ólst ég upp í fámenninu þar til ég var 15 ára og fór að heiman í fyrsta sinn, í skóla á Laugarvatni. Ég var alin upp í þessum samvinnuanda, pabbi var aðalmaðurinn á Kópaskeri og þegar eitthvað bjátaði á á kreppuárunum var leitað til hans. Stofnun samvinnufélaganna bjargaði fólkinu.“

Rafmagn þykir eðlilegur hlutur en það breytti miklu á sínum tíma. „Ég man eftir því þegar frystihúsið var byggt og þýskur maður kom til þess að setja upp ljósavélar,“ rifjar Gunnþórunn upp. „Það var bylting með rafmagninu og bara það að geta sett mat í frysti hafði mikil áhrif. Áður en rafmagnið kom vorum við með ljósalampa og við krakkarnir fægðum þá á hverjum föstudegi.“ Hún segist ekki hafa haldið í þann sið. „Ég á samt eitthvert silfur til þess að fægja stöku sinnum, en það er gaman að rifja upp bernskuárin. Ég ólst upp við það að fara í alla vinnu, mjólkaði meðal annars geitur og sveið kindahausa.“

Flottur bílstjóri

Hún segir það líka hafa verið ógleymanlega stund þegar útsendingar útvarps hófust 1930. „Allir þustu upp á loft og þar safnaðist fólkið fyrir framan viðtækið enda þótti það mikið undur að heyra í því. Það var ótrúlegt.“

Eiginmaður Gunnþórunnar var Bjarni Guðbjörnsson, bankastjóri og alþingismaður, sem lést 1999. Þau bjuggu í yfir 20 ár á Ísafirði og hún segist hafa sterkar taugar til Vestfjarða. „Ég var á fullu með kvenfélaginu á Ísafirði og söng í Sunnukórnum. Þarna átti ég góða vini og við vorum átta sem spiluðum reglulega saman brids.“

Fyrstu árin eftir að þau Bjarni giftu sig vann Gunnþórunn hjá Sambandi íslenskra samvinnufélaga en eftir að börnin þrjú fæddust var hún heimavinnandi. Hún var líka sjálfboðaliði í kvennadeild Rauða krossins í 30 ár. „Það var skemmtilegur tími,“ segir hún.

Lífsgleðin geislar af Gunnþórunni. „Ég hef átt svo góða ævi, verið heilsuhraust og ferðast mikið auk þess sem ég hef upplifað mesta framfaraskeið Íslands. Það eina sem er að er að ég hef aðeins tapað sjóninni og fyrir bragðið varð ég að hætta að keyra eftir að hafa verið flottur bílstjóri í 70 ár. Það var mikið áfall.“

Tvisvar í viku fer Gunnþórunn í Þorrasel, dagdvöl fyrir aldraða á Vesturgötu 7. „Ég hef spilað brids í áratugi en þar spilar enginn brids. Við spilum vist og það er betra en ekki neitt.“

Gunnþórunn býr í eigin íbúð og sér um sig sjálf. „Þú getur flett upp í mér endalaust,“ segir hún eftir að hafa fengið sér morgunkaffið. „Aðalatriðið er að vera til og láta mér líða vel á eigin heimili. Krakkarnir ætla að halda upp á afmælið og það mæta örugglega mjög margir.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »