Borgin gefur út íbúðakvóta

Hluti Hraunbæjar úr lofti. Nýbyggingar Bjargs eru hægra megin á …
Hluti Hraunbæjar úr lofti. Nýbyggingar Bjargs eru hægra megin á myndinni. mbl.is/Hallur Már

Með nýja hverfisskipulaginu í Reykjavík verða grenndarkynningar óþarfar í hverfum sem fá slíkt skipulag. Þá verður auðveldara fyrir húseigendur að sækja um breytingar á húsnæðinu. Breytingunum er ætlað að stuðla að fjölgun íbúða og skapa um leið verðmæti fyrir húseigendur.

Dr. Ævar Harðarson, verkefnisstjóri hverfisskipulags, segir hverfisskipulagið marka tímamót í skipulagssögu borgarinnar.

Meðal nýjunga í skipulaginu sé safn leiðbeininga um útfærslur á skipulagsskilmálum í hverju hverfi. Leiðbeiningarnar séu ekki tengdar einstökum hverfum heldur gildi fyrir alla borgarhluta. Þær má nálgast hér.

Fyrsta hverfisskipulagið í Reykjavík hefur tekið gildi í Ártúnsholti, Árbæ og Selási. Önnur hverfi í Reykjavík munu fylgja í kjölfarið og er gert ráð fyrir að flest hverfi Reykjavíkur verði komin með hverfisskipulag árið 2022. 

Með því að slá inn götuheiti og húsnúmer í hverfasjá geta íbúar í Ártúnsholti, Árbæ og Selási nú skoðað heimildir sínar í þessu efni.

Leysir af hólmi eldri áætlanir

Að sögn Ævars er hverfisskipulag tegund deilskipulags fyrir þegar byggð hverfi sem leysi af hólmi eldri deiliskipulagsáætlanir. Það byggi á víðtæku samráði, óskum íbúa og vistvænum áherslum í þróun hverfisins. Í hverfisskipulaginu fái íbúar og hagsmunaaðilar skipulagsheimildir til ýmiss konar breytinga, að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. 

„Meðal nýjunga hverfisskipulagsins er safn sérstakra leiðbeininga sem fjalla um útfærslur á þeim skipulagsskilmálum sem gilda fyrir hvert hverfi. Leiðbeiningarnar eru ekki tengdar einstökum hverfum heldur gilda fyrir alla borgarhluta,“ segir Ævar.

Borgin er opin fyrir því að heimila byggingu einnar hæðar …
Borgin er opin fyrir því að heimila byggingu einnar hæðar ofan á blokkir í Hraunbænum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Leyfi fyrir íbúðum í bílskúrum

Meðal helstu atriða samningsins séu heimildir fyrir atvinnustarfsemi innan íbúðarbyggðar. Þá sé gert auðveldara fyrir húseigendur að sækja um breytingar og veittar heimildir til að stækka húsnæði, byggja kvisti, breyta þaki, reisa viðbyggingar, byggja ofan á fjölbýlishús og setja lyftur til að bæta aðgengi. Víða verði heimilt að innrétta aukaíbúðir í húsum með því að byggja við, skipta upp eldra rými eða breyta lítið notuðum bílskúr í litla íbúð.  

Í greiningum á hverfum Reykjavíkur hafi komið í ljós að víða þarf að fjölga íbúum og jafna aldursdreifingu, meðal annars til að auka sjálfbærni og nýta betur innviði eins og skóla. Fjölgun íbúa muni einnig gera hverfin líflegri, styrkja verslun og þjónustu og efla hverfiskjarna í göngufæri í hverfinu.

„Reykjavík vantar íbúðir af ýmsum gerðum og stærðum. Sérstaklega vantar minni íbúðir til útleigu. Í vinnu við hverfisskipulag og í samráði við íbúa og hagsmunaaðila komu fram fjöldi hugmynda og óska um fjölgun íbúða í grónum hverfum og þá helst að húseigendur fengju heimildir til að innrétta litlar íbúðir í húsum sínum og húsfélög í fjölbýlishúsum fengju að reisa viðbyggingar fyrir nýjar íbúðir.

Einnig að leyft yrði að breyta atvinnuhúsnæði, bílskúrum og öðru húsnæði í íbúðarhverfum í íbúðir. Í hverfisskipulaginu er komið til móts við þessar óskir íbúa,“ segir Ævar.

Heimilt að stækka húsin

„Í nýju hverfisskipulagi fá íbúar heimild til að stækka húsnæði sitt með viðbyggingum. Einnig fá margir heimildir til að innrétta aukaíbúðir í húsum sínum, annaðhvort með því að byggja við, skipta upp eldra rými eða breyta lítið notuðum bílskúr í litla íbúð.

Þessar aðgerðir einar og sér geta stuðlað að verulegri fjölgun íbúða í borginni. Undirbúningur fyrir aðrar breytingar eins og kvistir, svalir og garðskúrar verður einnig þægilegri þegar kemur að skipulagshlutanum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert